3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Ánægður með gildandi deiliskipulag miðbæjar Selfoss

Ánægður með gildandi deiliskipulag miðbæjar Selfoss

0
Ánægður með gildandi deiliskipulag miðbæjar Selfoss
Kristinn G. Kristinsson.

Mikil umræða hefur verið meðal íbúa Árborgar undanfarin misseri um skipulagsmál miðbæjarins á Selfossi. Sitt sýnist hverjum og allir hafa eitthvað til síns máls. Staða málsins er sú að eftir undirskriftasöfnun meðal íbúa stendur til að halda íbúakosningu um fyrirhugaða aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingu. Sem íbúi í Sveitarfélaginu Árborg fagna ég heils hugar þessum möguleika á aðkomu okkar íbúanna að mótun nær umhverfis okkar. Rétt er að taka fram að ég hef ekki búið í Árborg nema síðan í nóvember 2015 er ég flutti á Selfoss.

Íbúakosning
Þegar kemur að íbúakosningunni er afar mikilvægt að kjósendur hafi sem gleggsta mynd af málinu. Hugmyndir Sigtúns þróunarfélags (SÞ) hafa fengið þokkalega kynningu en það eru hugsanlega aðrir þættir í tilurð og framkvæmd málsins sem hafa vakið upp spurningar meðal íbúa. Þær spurningar sem sést hafa á Facebook síðum um miðbæinn snúa eftir því sem mér sýnist mikið að bæjaryfirvöldum og tengjast skipulagsferlinu og samningum sem gerðir hafa verið í tengslum við það.

Nei eða já
Þegar gengið verður til þessarar íbúakosningar þá munu eflaust margir velta fyrir sér eftirfarandi sviðsmynd. Annars vegar ef ég segi já þá rís þarna hratt og örugglega nýr miðbær sem samanstendur af gömlum húsum sem eiga sér fyrirmynd héðan og þaðan af landinu ásamt miðaldarkirkju. Hins vegar ef ég segi nei þá mun ekkert gerast þarna næstu áratugina. Í mínum huga er málið ekki svona einfalt og það ber að forðast að bera það á borð fyrir kjósendur að svo sé.Versta útkoman í íbúakosningunni væri sú að íbúum yrði att saman í fylkingar með og á móti skipulaginu með yfirborðskenndum rökum. Til dæmis ef kjósandi velji að segja:
• nei, sé hann lýsa andstöðu sinni við fráfarandi meirihluta.
• já, sé hann að lýsa yfir stuðningi við fráfarandi meirihluta.
• nei, geti kjósandi komið í veg fyrir að SÞ séu færð sameiginleg gæði á silfurfati.
• já, sé kjósandi að samþykkja uppbyggingu miðbæjar á Selfossi.
• nei, sé verið að dæma miðbæinn til að vera þetta opna sár sem það er til næstu áratuga.

Hvert var samráðið við íbúana í skipulagsferlinu?
Mín upplifun er að frá upphafi hafi vantað samtal við íbúa sveitarfélagsins. Hugsanlegt er að ég hafi misst af umræðu þegar hugmyndir SÞ fóru af stað. Við svona umfangsmikla skipulagsvinnu með hjarta sveitarfélags er nauðsynlegt að draga fram allar staðreyndir og setja þær fram á faglegum og óhlutdrægum forsendum. Stjórnvald á að gæta almannahagsmuna og að tryggja sem best að almenningur fái sem hlutlausastar upplýsingar til að almenningur geti tekið upplýsta ákvörðun. Stjórnvöld virðast því miður oft vera að gæta sérhagsmuna einhverra fárra í stað þess að átta sig á því að almannahagsmunir eru þeir megin hagsmunir sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi.

Gagnsæ og opin stjórnsýsla?
Illa hefur gengið fyrir bæjaryfirvöld að upplýsa kjósendur um það af hverju skipulagsferlið hefur ekki gengið í gegn? Látið hefur verið að því liggja að málið strandi á andstöðu rúmlega 30% kosningabærra íbúa sem kröfðust íbúakosningar um aðal- og deiliskipulagið. Hinsvegar ríkir þögn um stöðu málsins hjá Skipulagsstofnun þ.e. að bæjaryfirvöld upplýsi um stöðu málsins hjá Skipulagsstofnun. Bæjarbúar fengu upplýsingar um að Vegagerðin hafi aftekið samþykkt þessarar deiliskipulagstillögu meðan ekki væri komin ný brú yfir Ölfusá. Svo gerist það rétt fyrir kosningar að birt er sérkennileg yfirlýsing undirrituð af framkvæmdastjóra Árborgar, yfirmanni Vegagerðarinnar, forsvarsmanni SÞ og vottað af bæjarlögmanni. Í yfirlýsingunni segir að aðilar séu sammála um að Vegagerðin falli frá þessu skilyrði sínu og ætli að sjá til hvort það verði nokkuð mikið um slys þó farið verði af stað með framkvæmdir. Maður hlýtur að spyrja hvaða gildi þessi yfirlýsing hafi í málinu þar sem hvergi hefur komið fram að um hana hafi verið fjallað í bæjarstjórn eða framkvæmdastjóra veitt umboð til undirritunnar hennar.

Það er í gildi deiliskipulag fyrir miðbæ Selfoss.
Mér hefur verið sagt að einhvern tíman hafi hugmyndasmiðir farið á flug og komið með hugmyndir að turnum á þessum miðbæjarreit. Ég er ólýsanlega þakklátur þeim sem náðu að vinna gegn þeim hugmyndum.
Á heimasíðu Árborgar fann ég hins vegar gildandi deiliskipulag að miðbæjarsvæðinu sem samþykkt var 30.04.2014 af sama meirihluta og hóf vinnu með SÞ að nýju deiliskipulagi ári síðar. Það má vel vera að mikil og almenn umræða hafi farið fram um gildandi skipulag en ég verð að játa að ég hef engar fregnir af henni. Mér finnst fróðlegt að gera samanburð á gildandi deiliskipulagi og tillögu SÞ sem er nú í gangi og búið að samþykkja í bæjarstjórn þrátt fyrir að hún hafi ekki tekið gildi. Án þess að vera búinn að gefa mér mjög langan tíma til að kafa í muninn á þeim tveimur þá er það fyrsta sem ég rek augun í að gildandi tillaga gerir ráð fyrir að svæðið fái að miklu leiti að vera laust við bílaumferð auk þess sem garðurinn fái að njóta sín betur en í hugmynd SÞ. Í tillögu SÞ er gert ráð fyrir götum sem kljúfa að mínu mati reitinn niður auk þess sem gengið er á þetta græna svæði sem vissulega mætti vera mun betur hirt og skipulagt en það er í dag. Þetta svæði gæti verið skipulagt þannig að það sameinaði kosti útivistarsvæðis til hátíðarhalda auk þess að vera nokkurs konar grasagarður.
Hvað veldur því að gildandi deiliskipulag hefur ekki náð fram að ganga? Hvað hefur sveitarfélagið gert til að markaðssetja þessar lóðir og þetta svæði út frá þessu skipulagi?
Megin tilgangur minn með þessum hugleiðingum er að benda á að þegar íbúar Árborgar ganga til kosninga um framtíð þessa svæðis þá verður að vera búið að fjalla um alla þá möguleika sem eru í stöðunni. Þetta er ekki bara spurningin um að samþykkja fyrirliggjandi tillögu eða að ekkert gerist. Það er hægt að setja spurninguna fram sem val á milli gildandi deiliskipulags eða hugmyndar að nýju skipulagi.
Kristinn G. Kristinsson, Erlurima 4, Selfossi