Alls komu 595 fiskar á land fyrstu veiðivikuna í vötnum sunnan Tungnaár vikuna 23. til 1. júlí sl. Athygli vakti góð veiði í Blautaveri, en þar komu 53 fiskar á land og þyngsti fiskurinn þar var þrjú pund.
Veiðileyfi eru seld í Landmannahelli og í fjallabúðinni í Landmannalaugum. Ekki þarf að panta fyrirfram. Veiðisvæðið er tilvalið fyrir fjölskyldur og veitir veiðileyfið aðgang að góðum veiðivötnum eins og Frostastaðavatni, Dómadalsvatni og Ljótapolli auk margra annarra vatna. Veiðimenn eru hvattir til að skila útfylltum veiðileyfum að lokinni veiðiferð til veiðivarða í Landmannahelli, í safnkassa á gatnamótum við Frostastaðavatn/Ljótapoll eða við efri afleggjara inn að Landmannahelli.
Hellismenn ehf. sem reka ferðaþjónustu við Landmannahelli sjá um veiðivörslu á svæðinu í sumar. Hægt er að fá tjald- og skálagistingu í Landmannahelli og Landmannalaugum.
Veiðitölur í sumar má sjá á heimasíðunni www.veidivotn.is.