5 C
Selfoss
Home Fréttir Tveir styrkþegar úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands 2018 úr Menntaskólanum að Laugarvatni

Tveir styrkþegar úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands 2018 úr Menntaskólanum að Laugarvatni

0
Tveir styrkþegar úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands 2018 úr Menntaskólanum að Laugarvatni
Menntaskólinn að Laugarvatni. Mynd: ML.

Þrjátíu og þrír nemendur sem hyggjast hefja nám í Háskóla Íslands í haust tóku við styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi 25. Júní sl. Styrkþegarnir sem koma úr tólf framhaldsskólum víða af landinu eiga það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Við mat á styrkþegum er einnig horft til virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs á öðrum sviðum, til dæmis í listum eða íþróttum. Þá leitast stjórn sjóðsins við að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Á meðal styrkþega voru tvær stúlkur sem útskrifuðust frá Menntaskólanum að Laugarvatni í vor. Það voru þær Bjarnveig Björk Birkisdóttir frá Brekku í Þykkvabæ og Írena Rut Stefánsdóttir úr Hveragerði.

Bjarnveig Björk Birkisdóttir.

Bjarnveig Björk Birkisdóttir var semidúx Menntaskólans að Laugarvatni við brautskráningu kandídata í vor. Við útskrift hlaut hún ýmsar viðurkenningar, þar á meðal Menntaverðlaun Háskóla Íslands sem veitt voru í fyrsta sinn í framhaldsskólum landsins í vor. Hún var virk í félagslífi Menntaskólans á Laugarvatni, m.a. í leiklist og söng með kór menntaskólans. Bjarnveig Björk hyggur á nám í íslensku í haust.

Írena Rut Stefánsdóttir.

Írena Rut Stefánsdóttir var dúx Menntaskólans að Laugarvatni við brautskráningu nú í vor og hlaut viðurkenningar fyrir afburðaárangur á stúdentsprófi. Hún var afar virk í félagsstarfi skólans, þar á meðal í nemendafélagi og kór. Írena Rut hyggur á nám í lífeindafræði í haust.