3.4 C
Selfoss

Söguskilti um kirkjustarf í og við Hveragerði

Vinsælast

Hveragerðisbær hlaut nýlega styrk frá styrktarsjóði Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands til gerðar söguskiltis við Hveragerðiskirkju. Styrkurinn nemur 390.000 krónum.

Á fundi bæjarráðs var þakkað fyrir góðar viðtökur við styrkumsókn bæjarins og fól bæjarráð menningar- og frístundafulltrúa að sjá um gerð skiltisins sem gera myndi grein fyrir kirkjustarfi í og við Hveragerði í gegnum árin.

Í umsókn Hveragerðisbæjar kom meðal annars eftirfarandi fram:
Á undanförnum árum hefur verið unnið ötullega að uppsetningu söguskilta í bæjarfélaginu og nú eru þau orðin 11 talsins. Í þessu eins og mörgu öðru sannast að góðir hlutir gerast hægt en með einu skilti á ári, svona nokkurn veginn, hefur þetta tekist. Í dag er því hægt að ganga góðan hring um okkar fallega bæ og fræðast um leið um sögu, náttúru og mannlíf á staðnum.

Hefur þessum veglegu skiltum meðal annars verið komið upp með tilstilli Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands sem styrkt hefur gerð þeirra reglulega.

Í ár, 2018, hefur bæjarstjórn hug á að setja upp skilti við Hveragerðiskirkju þar sem gerð yrði grein fyrir langri kirkjusögu í og við Hveragerði. Lengi var til dæmis kirkja á Reykjum hér fyrir ofan bæinn. Trúlega frá upphafi kristni en þar var prestssetur fram yfir siðbreytingu. Reykir koma töluvert við kristnisögu landsins, ekki síst á siðbótartímanum. Ögmundur biskup Pálsson átti eða hafði ráð á jörðinni og dvaldi þar löngum. Oddur Gottskálksson bjó þar í sex ár eftir að hann hafði lokið þýðingu og útgáfu Nýja testamentisins og vann að þýðingum og bókaútgáfu.

Kirkjan að Reykjum fauk af sökkli sínum í ofsaverði í byrjun síðustu aldar. Þá var kirkjan flutt niður að Arnarbæli í Ölfusi þar sem sóknarprestur sveitarinnar sat lengi með mikilli prýði. Þar er nú allt komið í eyði og kirkjan er horfin Þá byggðist Kotströnd, kirkjan við veginn, sem er þekkt víða fyrir útlit, staðsetningu og fegurð. En fljótlega þótti Hvergerðingum í hinu unga sveitarfélagi illt að hafa ekki kirkju innan sinna marka og því hófust framkvæmdir við Hveragerðiskirkju uppúr 1970 og var kirkjan vígð 1975. Í dag er hún eitt af höfuðtáknum byggðarinnar hér í Hveragerði.

Þessari sögu allri langar bæjarstjórn að gera ítarlegri skil á söguskilti sem staðsett yrði við Hveragerðiskirkju og yrði það þar með hluti af söguskiltaröð bæjarins.

Nýjar fréttir