-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Frjáls með Framsókn í meirihluta í Hveragerði? Nei, því miður

Frjáls með Framsókn í meirihluta í Hveragerði? Nei, því miður

0
Frjáls með Framsókn í meirihluta í Hveragerði? Nei, því miður

Á síðasta kjörtímabili var gott samstarf milli minnihlutaflokkanna Samfylkingar og óháðra og Frjálsra með Framsókn. Samfylkiningin með sína tvo bæjarfulltrúa og Frjálsir með Framsókn einn bæjarfulltrúa. Þetta samstarf fól m.a. í sér að báðir flokkar áttu einn mann í hverja fastanefnd Hveragerðisbæjar.

Að loknum kosningum í vor
Skipting bæjarfulltrúa milli framboðanna var óbreytt frá fyrra kjörtímabili og óskuðu Frjáls með Framsókn eftir áframhaldandi samstarfi minnihlutans varðandi skipan í nefndir. Á fundi Frjálsa með Framsókn og Okkar Hvergerðis skömmu eftir kosningar lögðu Frjáls með Framsókn áherslu á að halda óbreyttri skiptingu nefndarmanna. Það kom fljótt í ljós að Okkar Hveragerði var þessu ekki sammála og krafðist fimm nefndarmanna af átta. Sem táknar að Okkar Hveragerði hefði átt tvo menn í einni nefnd en Frjáls með Framsókn engan í sömu nefnd. Á þetta gátu Frjáls með Framsókn ekki fallist og þess vegna slitnaði þá þegar upp úr samningarviðræðum við Okkar Hveragerði. Eins og allir vita þá er markmiðið með þátttöku í bæjarpólitík að hafa áhrif og vinna sjónarmiðum sínum framgang. Frjáls með Framsókn vildu því leita löglegra og lýðræðislegra leiða til að hafa áhrif og höfðu því samband við meirihlutann í Hveragerði sem féllst á okkar rök. Það er því rangt að samningaviðræður hafi verið í gangi þegar rætt var við Sjálfstæðismenn.

Hlutkesti
Hugmynd Okkar Hveragerðis um hlutkesti á milli Frjálsa með Framsókn og Okkar Hveragerðis um skiptingu nefndarmanna gat aldrei gengið samkvæmt D’Hondt reiknireglunni nema með samþykki Sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn hefðu alltaf getað mótmælt þessu og krafist hlutkestis milli allra flokka. Það hefði getað leitt til þess að Frjáls með Framsókn hefði hugsanlega ekki fengið neinn nefndarmann, Sjálfstæðismenn fjóra menn í allar nefndir og jafnframt að Okkar Hveragerði hefði ekki fengið neinn umfram þann eina sem þeir höfðu fyrir.

Fagleg ráðning bæjarstjóra
Fullyrðing Okkar Hveragerðis um að Frjáls með Framsókn hefði kosið með Sjálfstæðisflokknum um ráðningu bæjarstjóra er röng. Á þeim fundi var ekki verið að kjósa um ráðningu bæjarstjóra heldur eingöngu valdir tveir fulltrúar til viðræðna við Aldísi Hafsteinsdóttur um áframhaldandi bæjarstjórastöðu. Hvort vissu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis ekki um hvað þessi dagskrárliður snérist eða eru þau vísvitandi að hagræða sannleikanum? Kosningaloforð Frjálsra með Framsókn varðandi faglega ráðningu bæjarstjóra hefur ekkert breyst. Því miður gáfu úrslit sveitarstjórnarkosninganna okkur ekki nægan styrk til að auglýsa eftir bæjarstjóra.

Næstu fjögur ár
Frjáls með Framsókn munu eftir sem áður veita meirihlutanum aðhald en styðja öll góð mál saman hvaðan þau koma. Við munum leggja áherslu á fjölskylduvæn málefni eins og komu fram í málefnaskrá okkar fyrir kosningarnar í vor. Við fögnum því að nú þegar hefur fyrsta tillaga okkar verið samþykkt. Tillagan fólst í því að efla aðkomu ungmenna að stjórn bæjarins með ungmennaþingi í haust og virkara ungmennaráði.

Garðar R. Árnason
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Snorri Þorvaldssson
Sæbjörg Lára Másdóttir
Nína Kjartansdóttir