1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Ekki í rónni nema hafa ólesna bók við hendina

Ekki í rónni nema hafa ólesna bók við hendina

0
Ekki í rónni nema hafa ólesna bók við hendina
Hjördís Björk Ásgeirsdóttir.

Hjördís Björk Ásgeirsdóttir, lestrarhestur Dagskrárinnar, segist vera venjulegur bókaormur sem var svo lánssöm að læra að lesa áður en hún byrjaði í skóla. Hún er búsett á Selfossi en í gegnum tíðina hef hún sinnt margvíslegum störfum, verið garðyrkjubóndi, rekið umhverfisfræðslusetur og unnið sem félagsliði á sambýli svo eitthvað sé nefnt.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Langflestar bækur sem ég les eru sóttar á Bókasafn Árborgar. Þangað sótti ég þær bækur sem ég er með í takinu núna. Ég hef nýlokið við að lesa bókina Átta fjöll eftir ítalska rithöfundinn Paolo Cognetti í mjög svo fallegri þýðingu Brynju Cortes Andrésdóttur. Sú bók fjallar um vináttu tveggja manna sem fara ólíkar leiðir í lífinu. Ólokið er svo lestri á bókinni Leti er dygð eftir Kristján Hreinsson sem mér finnst alveg frábær. Saga úr íslensku samfélagi þar sem hrokinn ræður örlögum fólks.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég tel að áhugasvið mitt þegar kemur að bókum sé nokkuð víðfeðmt. Skáldsögur af ýmsum toga, bækur sem lýsa mannlífinu í hinum ýmsu kimum veraldarinnar höfða til mín. Spennusögur les ég af og til og ýmiskonar uppflettibækur, ekki síst um íslenska náttúru. Ástarsögur og vísindaskáldsögur eiga ekki uppá pallborðið hjá mér og ævisögur les ég sjaldan.

Ertu alin upp við lestur bóka?
Ég var svo sannarlega alin upp við lestur. Móðir mín las fyrir okkur krakkana öll kvöld fyrir svefninn og við eldri systurnar lásum fyrir þau yngri. Við höfðum ekki aðgengi að bókasafni þegar ég var barn en við krakkarnir bjuggum að því að það var mikið til af bókum á heimilinu og okkur voru gefnar bækur. Mig langar að nefna tvær bækur sem voru mér sérlega kærar, önnur heitir Lappi lærir að synda sem ég held að sé fyrsta bókin sem ég las sjálf. Hin er Kardimommubærinn í sérlega fallegu broti. Þá bók gaf frænka mín mér í afmælisgjöf þegar ég var sjö ára. Ég á báðar þessar bækur enn, lúnar og lesnar nánast upp til agna. En svo las maður bara allt sem til var, hvort sem það var ætlað börnum eða ekki, ljóðasafn Davíðs Stefánssonar, ritsafn Einars Kvaran, Íslendingasögur og hvað og hvað.

En hvernig er lestrarvenjur þínar?
Ég er eiginlega ekki í rónni ef ég hef ekki ólesna bók tiltæka. Ég les langmest á kvöldin og tek bóklestur fram yfir flesta afþreyingu. Þegar ömmustelpan mín kemur í heimsókn frá Belgíu lesum við heilu staflana af barnabókum.

Er einhver einn höfundur í meira uppáhaldi en aðrir?
Ég ætla að nefna Auði Övu Ólafsdóttur sem uppáhaldshöfund. Bækurnar hennar eru eitthvað svo ljúfar og sannar finnst mér og skilja alltaf eitthvað eftir til umhugsunar. Ör er síðasta bókin sem ég hef lesið eftir hana, lærdómsrík bók og fallega skrifuð.

Hefur bók rænt þig svefni?
Það hefur sannarlega gerst að bók ræni mig svefni en það er þó mun oftar sem ég sofni út frá því að lesa bók og vakni svo um miðja nótt með gleraugun á nefinu og ljós á náttlampanum.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ég myndi vilja skrifa bók á borð við Undur Mývatns eftir Unni Jökulsdóttur. Afskaplega vel skrifuð bók og fallega myndskreytt af Árna Einarssyni og Margaret Davies. Sannur óður til íslenskrar náttúru.