3.9 C
Selfoss

KIA Gullhringurinn fer fram um helgina

Vinsælast

Hjólreiðakeppnin KIA Gullhringurinn verður haldin um helgina á Laugarvatni. Hún hefur verið haldin þar með sama fyrirkomulagi síðan 2012 og vaxið gríðarlega í umfangi og er núna fastur punktur í sumardagatali bæði afreksfólks og áhugafólks.

Allir hjóla, allir vinna og allir velkomnir er yfirskrift mótsins og mikið gert úr því að allir fái vegleg þáttökuverðlaun. Svo er öllum boðið í grillpartý í boði Holta og SS á eftir. Einnig geta gestir baðað sig í Fontana böðunum á Laugarvatni. Síðustu ár hefur færst í aukana að fjölskyldur geri þetta að helgarheimsókn á Laugarvatn enda einn fallegasti staður landsins.

Mótshaldarar Kia Gullhringsins hafa síðan í haust unnið að endurskoðun keppninnar. Fundað hefur verið með lögreglunni á Suðurlandi og Vegagerðinni í Reykjavík og á Suðurlandi síðan í september um hvernig efla megi öryggi keppenda í þessari vinsælu keppni sem er haldin á þessari fjölfjörnu leið. Lokun fyrir bílaumferð á þeim stutta tíma sem keppendur fara um svæðið hefur verið til skoðunar. Vel hefur verið tekið í allar hugmyndir mótshaldara og hafa gagnlegar ábendingar einnig komið frá þessum aðilum. Því má búast við mörgum hjólreiðamönnum í uppsveitum Árnessýslsu um helgina og fólk beðið að fara varlega bæði hjólarar og vegfarendur.

Heiðursgesturinn í ár hefur hjólað Tour de France oftar en nokkur annar
Einhver mesti hjólreiðakappi heims, George Hincapie, verður heiðursgestur Kia Gullhringsins í sumar. Engin maður í heiminum hefur hjólað í fleiri Tour de France-keppnum og aðeins einn annar hefur verið jafn oft í sigurliði Tour de France. Það væri að æra óstöðugan að telja alla titlana sem hann hefur unnið um allan heim á ferli sem hófst árið 1987. Hæst reis frægðarsól hans þegar hann hjólaði í hinu heimsfræga US Postal-liði undir stjórn Lance Armstrong, en það lið var óstöðvandi í áraraðir. Hann var algjör lykilmaður í sigrum Armstrong og sama má segja um sigra Alberto Contador 2007 í Tour de France og Cadel Evans árið 2011. Þess utan hjólaði Hincapie á fimm Ólympíuleikum fyrir Bandaríkinn á árunum 1992 til 2008.

Ræsingartími færður og lokanir á umferð
Ræsingartími mótsins hefur verið færður til kl. 19:00 í stað kl. 18:00 til þess að gera lokanir brautarinnar auðveldari í framkvæmd. Þá er umferð um svæðið enn umfangsminni. Sérstakur öryggisstjóri hefur verið fenginn inn í teymið sem mun samhæfa vinnu björgunarsveita, viðbragðsteymis, lögreglu og Vegagerðar svo það sé allt á einni hendi. Einnig verður gæsla efld enn meira bæði innan og utan brautar. Mótshaldarar hafa samið við lögregluna á Suðurlandi um þjónustu þriggja lögreglubíla sem munu fylgja keppninni og vinna í kringum lokanir, til viðbótar við önnur viðbragðsteymi sem við höfum verið með. Þá verður bætt við brautarbílum og margt fleira.

Umfangsmestu lokanir í sögu keppninnar
– Allt gert til að tryggja öryggi keppenda

Eftir stíf fundarhöld með Vegagerðinni og lögreglunni á Suðurlandi eru komin drög að lokunarplani. Við upphaf keppni þegar allir hjólarar leggja af stað frá Laugarvatni verður lokað á umferð alla leið að Geysi. Þá verður einnig lokað í báðar áttir á vegkaflanum frá Svínavatni að Laugarvatni. Þetta tryggir að síðustu 12 kílómetrarnir verða án utanaðkomandi umferðar.

Fyrir þá sem hjóla 106 km verður Lyngdalsheiðin lokuð í austurátt þannig að engin umferð verður í bakið á hjólurum. Ofangreindar lokanir takmarka mjög aðgengi bílaumferðar að Laugarvatni og eru gerðar með öryggi keppenda að leiðarljósi.

Óháður umferðaröryggissérfræðingur ráðinn
Ólafur Kr. Guðmundsson hefur verið fenginn til þess að vinna öryggisúttekt á keppnisbrautum Kia Gullhringsins fyrir í komandi keppni næsta sumar. Ólafur er helsti sérfræðingur landsins í umferðaröryggi og hefur á síðustu árum verið mjög ötull talsmaður þessa málaflokks. Hann er varaformaður FÍB og fulltrúi EuroRAP (European Road Assessment Programme), en verkefni þess er að kortleggja vegi og ástand þeirra út frá öryggissjónarmiðum. Undanfarin 35 ár hefur Ólafur verið í forsvari fyrir akstursíþróttir á Íslandi innan ÍSÍ og fulltrúi þeirrar greinar hjá FIA, sem er alþjóða bílasambandið. Þá er hann alþjóðlegur dómari FIA í akstursíþróttum í ýmsum greinum kappaksturs, þar á meðal Formúlu 1.

Mikill fengur fyrir keppnina
Ólafur vann þá úttekt mánuði fyrir keppni og munu mótshaldarar birta þá skýrslu á heimasíðu keppninnar og vinna að öryggisúrbótum með viðeigandi aðilum fram að keppni. Önnur úttekt verður svo unnin síðasta sólarhringinn fyrir keppni, þegar ljóst verður hvaða svæði verða orðin örugg og hvaða svæði verða metin sem sérstök öryggisáhættusvæði, og verður séð til þess að þau verði merkt sem slík og athygli keppenda vakin á því.
„Það er frábært að fá Ólaf í það verkefni að taka út öryggisþættina í keppninni. Ég þekki vel til starfa hans sem formanns Bílgreinasambandsins og við hjá Öskju vorum fyrsta fyrirtækið til að styðja við EuroRAP-verkefnið,“ sagði Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju, umboðsaðila Kia á Íslandi.

Innri öryggisstjóri skipaður í teymið
Þá hefur Þórir Erlingsson verið skipaður öryggisstjóri Kia Gullhringsins. Þórir er með meistaragráðu í alþjóðlegri ferðaþjónustu frá Háskólanum í Suður-Karólínu, Columbia, og kennir ferðaþjónustustjórnun við Háskólann á Hólum. Þórir rak um tíma fyrirtæki sem sérhæfði sig í öryggis- og forvarnalausnum og vörum fyrir heimili og fyrirtæki og þá hefur hann áratuga reynslu af björgunarsveitarstörfum á Íslandi. Starf hans mun felast í úrvinnslu ábendinga úr öryggisúttektum EuroRAP, öryggismerkingum á keppnisbrautum og samhæfingu og samskiptum björgunar- og viðbragsaðila mótsins við stjórnendur.

Áframhaldandi áhersla á umfangsmikið viðbragðsteymi
Áfram verður unnið með björgunarsveitum á Laugarvatni og Selfossi, lögreglunni á Suðurlandi og sjúkraflutningum í Árnessýslu að því að á Laugarvatni sé öflugasta viðbragðsteymi sem völ er á í hjólreiðakeppni á Íslandi. Tvær björgunarsveitir með viðbragðsbíla, sjúkraflutningabíll, læknir og sjálfboðliðar hafa komið að innri öryggismálum keppninnar til þessa og munu gera áfram. Í keppninni í fyrra voru viðbragðsteymi lögreglu og sjúkraflutninga í fyrsta sinn á Laugarvatni ofan á annan viðbúnað keppninnar þar. Eins og flestir vita varð alvarlegt slys í keppninni í fyrra en eftir að slysið var tilkynnt var allt tiltækt lið lögreglu, sjúkraflutninga, og björgunarsveita komið á slysstað á um það bil 15 mínútum.

Sérstök ræsing „Njóta en ekki þjóta“
Þetta eru helstu breytingar mótshaldara er varða öryggismál í kringum keppnina. Þá verða fleiri breytingar er varða yfirbragð keppninnar kynntar fljótlega, en gildi hennar, „Vinátta, virðing og keppni“, eru enn í hávegum höfð. Þar munu meðal annars keppendur í Silfurhring geta valið „njóta“-ræsingu eða „þjóta“-ræsingu, þar sem þjóta-hóparnir eru ræstir fyrr. Njóta-ræsingin verður fyrir þá sem eru fyrst og fremst að hjóla til að hafa gaman og keppa við sjálfa sig en ekki að sækjast eftir að slá brautarmetin. Í stað drykkjastöðva verða „gleðistöðvar“ þar sem boðið verður bæði upp á mat og drykk og alls kyns uppákomur.

Valinn maður í hverju rúmi
Teymið fyrir Kia Gullhringinn er að taka á sig mynd. Lilja Birgisdóttir mun stýra mönnun og hafa yfirumsjón með öllum brautarbílum. María Sæmundsdóttir mun halda utan um ræsinguna, sem er þó nokkuð verkefni því engin keppni ræsir jafn marga keppendur og Kia Gullhringurinn. Erlendur Þorsteinsson og Hjalti Hjartarson eru í dómarateyminu okkar. Þórir Erlingsson er yfir öllum öryggismálum og samskiptum við alla viðbragðsaðila eins og lögreglu, björgunarsveitir og sjúkraflutninga. Helgi Hinriksson mun stýra markinu, tímatöku og öðru sem fer þar fram.

Nýjar fréttir