2.3 C
Selfoss

Ný göngubrú yfir Svartá við Árbúðir tekin í notkun

Vinsælast

Laugardaginn 23. júní sl. var formlega tekin í notkun ný göngubrú yfir Svartá við Árbúðir á Biskupstungnafrétti. Í ávarpi Helga Kjartanssonar oddvita Bláskógabyggðar kom fram að brúin er algjörlega unnin að frumkvæði tveggja heimamanna sem láta sér annt um verndun hálendisins. Þeir gáfu alla vinnu sína við verkið en Ferðafélag Íslands veitti styrk fyrir hluta af efniskaupum.

Guðmundur Ingólfsson, Helgi Kjartansson og Loftur Jónasson.

Brúna hannaði og smíðaði Guðmundur Ingólfsson vélvirkjameistari á Iðu. Uppistaða hennar er úr gömlum byggingakrana og undir henni eru öxlar með hjólum. Loftur Jónasson í Myrkholti og rekstraraðili í Árbúðum, sá um að smíða timburgólf brúarinnar. Þeir félagar hjálpuðust síðan að við að koma henni fyrir í ánni, en rétt er að taka fram að ekkert rask varð við uppsetningu brúarinnar. Lengd brúarinnar eru 17 metrar en auk þess eru 2 metra landbrýr á hvorum enda. Brúin er á hjólum og verður hún dregin á þurrt land á hverju hausti, því áin bólgnar svo upp af krapa og ís á veturna að yfirborð hennar getur hækkað um marga metra.

Brúin mun auðvelda gangandi og hjólandi ferðamönnum að komast yfir ána þegar farið er á milli Árbúða og Hvítárnes. Tilkoma brúarinnar er liður í að vernda viðkvæma náttúru hálendisins og ekki síður liður í þeirri hugsun heimamanna, að stýra umferð ferðafólks um ákveðnar leiðir svo ekki verði óþarfa álag á viðkvæman gróður á svæðinu.

Að lokinni opnun brúarinnar gengu viðstaddir yfir hana og þáðu að lokum rausnarlegar veitingar í boði rekstraraðila Árbúða hjónanna Vilborgar Guðmundsdóttur og Lofts Jónassonar í Myrkholti.

Nýjar fréttir