Guðný Guðmundsdóttir, listakona með meiru, sýnir um þessar mundir klippimyndir í Miðgarði við Austurveg á Selfossi. Guðný er fædd og uppalin í Flóanum en er að koma sér fyrir í nýju húsi á Selfossi. Hún segir að það hafi verið mjög góð ákvörðu að flytja á Selfoss.
„Nú er ég í góðum félagsskap með fólki sem ég þekki til og þekkir til uppruna míns. Mér hefur verið vel tekið, ekki síst í Hörpukórnum og Kvæðamannafélaginu Árgala. Ég er mjög þakklát fyrir að geta sýnt myndlist mína hér á Selfossi, en ég geri klippimyndir, klippi út úr tímaritum og lími í listaverk, collage er það kallað. Tónlist og myndlist varðveita stóran hlut af sál minni og tilveru. Ég er á fullu við að koma mér fyrir í nýja húsinu mínu og hugsa gott til glóðarinnar að geta haft heimili mitt fyrir eitt allsherjar gallerý þegar fram líða stundir,“ segir Guðný.
Nú hanga uppi valdar klippimyndir eftir Guðný í Miðgarði við Austurveg og vonast hún til að sem flestir sjái sér fært að koma og skoða þær.