3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Ætlum við að láta rándýrt mannvirki í Vík eyðileggjast?

Ætlum við að láta rándýrt mannvirki í Vík eyðileggjast?

0
Ætlum við að láta rándýrt mannvirki í Vík eyðileggjast?
Ástþór Jón Tryggvason.

Ástandið á íþróttavellinum í Vík er engan veginn til fyrirmyndar. Hægt og rólega hefur hann fengið að drabbast niður. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar hefur ekkert verið aðhafst í viðhaldi hans og áhugi á því verið takmarkaður. Í dag er ekki hægt að halda lögleg mót á vellinum án þess að setja strigalímband á línur vallarins því þær sjást annars ekki . Völlurinn er ekki boðlegur undir mótahald stærri móta eins og Umf. Katla hefur metnað til að halda.

Það var seinast árið 2011 sem fjármagn fékkst í völlinn og það var meira að segja ekki auðvelt að fá það. Þannig var mál með vexti að við áttum að halda Meistaramót Íslands 11–14 ára. Var okkur gerður sá kostur að laga völlinn eða mótið yrði tekið af okkur. Árið 2011 var ástand vallarins einnig slæmt, en það er ennþá verra núna.

Ástand Víkurvallar er ekki gott. Merkingar á vellinum sjást ekki og þarf m.a. að setja límbönd og festa með teiknibólum til að afmarka brautir.

Ég tel fyrrum sveitarstjórnarmeirihluta og sveitarstjóra bera ansi mikla ábyrgð á þessari vanhirðu. Með henni er illa komið fram við allt það frábæra íþróttafólk sem Umf. Katla á innan sinna raða. Mörg þeirra eru á grunnskólaaldri. Eiga börnin ekki betra skilið? Hvað þurfum við að sanna okkur oft? Vinna marga Íslandsmeistaratitla? Hvað þurfum við að gera til þess að fá lágmarks þjónustu? Ekki er beðið um frábærar aðstæður, heldur einungis að grunn hirðu vallarins sé sinnt. Sem dæmi um góðan árangur íþróttafólks í Vík má nefna að Umf. Katla hefur á undanförnum tveimur árum unnið tíu Íslandsmeistaratitla og tvo unglingalandsmótstitla í frjálsíþróttum. Það er bara brot af öllum þeim flotta árangri sem okkar fólk er að ná.

Ég er spenntur að sjá hvað ný sveitarstjórn gerir. Þetta er algjört forgangsmál og þolir ekki frestun eða bið. Ætlum við að taka okkur tak eða láta rándýrt mannvirki eyðileggjast?