-5.8 C
Selfoss
Home Fréttir Máni Snær íþróttamaður Hrunamannahrepps

Máni Snær íþróttamaður Hrunamannahrepps

0
Máni Snær íþróttamaður Hrunamannahrepps
Máni Snær Benediktsson.

Máni Snær Benediktsson var útnefndur íþróttamaður Hrunamannahrepps þann 17. júní sl. Karl Gunnlaugsson afhenti hon­­um eignarbikar og farandbik­ar af því tilefni.

Í umsögn segir að Máni Snær sé mjög efnilegur og fjölhæfur íþróttamaður í stöðugri framför. Árangur hans á frjálsíþróttavell­in­um á síðasta ári var mjög góður og afrek hans í hástökki og lang­hlaupum standa þar upp úr. Máni Snær vann fjóra Íslandsmeistara­titla í flokki 15 ára pilta á árinu 2017. Hann varð Íslandsmeistari í hástökki innanhúss þegar hann stökk 1,75 m, Íslandsmeistari í 3000 m hlaupi utanhúss er hann hljóp á tímanum 9:55,49 mín og Íslandsmeistari í boðhlaupi með sveitum HSK, bæði innan- og utanhúss. Í 3000 m hlaupinu á Meistaramótinu setti hann nýtt HSK-met í flokki 15 ára. Á árinu setti Máni einnig HSK-met með boðhlaupsveit sinni. Auk þessa hefur Máni Snær verið valinn í Úrvalshóp FRÍ fyrir árangur sinn í 3000 m hlaupi. Ekki vantaði hann mikið upp á lágmörkin í fleiri greinum því í hástökki vant­aði hann einungis 1 cm upp á og 20 hundruðustu út sekúntu til að ná lágmarkinu í 200 m hlaupi. Við þetta má bæta að Máni Snær stundar knattpyrnu af krafti með Umf. Selfoss og körfuknattleik með Umf. Hrunamanna.

Íþróttamenn Hrunamanna sem fengu viðurkenningar.

Íþrótta­menn í Hrunamanna­hreppi sem unnið hafa Íslands­meistaratitla og þeir sem valdir hafa verið í landslið á árinu 2017, voru einnig heiðraðir og fengu afhenta verðlaunaplatta því til stað­­fest­ingar. Eru það eftirtaldir:
Lið UMFH/Laugdælir í meistara­flokki karla, Íslandsmeistarar í körfuknattleik í 2. deild.
Máni Snær Benediktsson, Íslands­meistari í frjálsum íþróttum.
Una Bóel Jónsdóttir, Íslands­meist­­ari í frjálsum íþróttum.
Ingibjörg Bára Pálsdóttir, Íslands­meistari í frjálsum íþróttum.
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir, valin í landslið Íslands í körfu­knattleik U-18.
Ragnheiður Björk Einarsdóttir, val­in í landslið Íslands í körfu­knattleik U-18.
Perla María Karlsdóttir, valin í lands­lið Íslands í körfuknattleik U-15.