3.9 C
Selfoss

Tvö útköll á hálendið á Suðurlandi

Vinsælast

Seinni partinn í dag voru björgunarsveitir á Suðurlandi aftur boðaðar út vegna ferðamanns sem var í vandræðum á hálendinu. Björgunarsveitafólkið var nýlega komið úr útkalli á Fimmvörðuhálsi frá því um nóttina, þegar útkallið barst. Að þessu sinni var um að ræða göngumann sem var örmagna og villtur á Syðra-Fjallabaki á milli Hvanngils og Emstra.

Mikill þoka var á svæðinu og sá ferðamaðurinn að einhverju leiti til fjalla en vissi ekki hvar hann var fyrir utan það að vera á slóða. Ferðamaðurinn var í farsímasambandi og átti þannig samskipti við björgunarsveitafólk sem var lagt af stað til hans.

Björgunarsveitafólkið vissi af aðila á vegum Ferðafélags Íslands á svæðinu og bað hann að keyra slóðann á því svæði þar sem talið var að maðurinn væri út frá farsímasendi sem sími hans tengdist. Sá fann manninn stuttu seinna og keyrði með hann á móti björgunarsveitafólkinu sem flutti manninn svo í Emstruskála, þar sem honum var gefið heitt að borða og drekka.

Hálendisvakt hefst á föstudaginn
Á föstudaginn hefst hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar 13. árið í röð. Hátt í 200 manns standa vaktina á þremur stöðum á hálendinu fram í ágúst. Þannig er hægt að stytta viðbragð og sinna forvörnum með því að leiðbeina og aðstoða ferðamenn. Miðað við verkefnin hjá björgunarsveitum í dag er fullt ástæða fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg að halda úti því verkefni.

Á hálendinu er enn töluverður snjór bæði á vegum og gönguleiðum og aðstæður til ferðalaga því víða ekki góðar. Mikilvægt er fyrir göngufólk að hafa það í huga við sína áætlanagerð að gönguferðir í þannig aðstæðum geta verið erfiðari en ella. Einnig er alltaf mikilvægt að huga að veðurspám og kynna sér aðstæður, hvort sem þar er sumar að vetur.

Nýjar fréttir