3.9 C
Selfoss

Gróska í starfi Krabbameinsfélags Árnessýslu

Vinsælast

Nú í byrjun júní lauk viðburðaríku starfsári hjá Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Félagið hefur vaxið til muna á síðustu tveimur árum, starfsemi þess er sífellt að eflast og félagsmönnum fjölgar. Á starfsárinu 2017–2018 var markmiðið að auka fræðslu og þjónustu í heimabyggð og er óhætt að segja að því markmiði hafi verið náð. Félagið bauð upp á ýmis námskeið og fyrirlestra bæði fyrir félaga en einnig fyrir almenning sem hafði áhuga á að nýta sér það sem boðið var upp á. Má þar nefna minnisnámskeið og námskeiðið Markmiðasetning og jákvæð sálfræði, auk þess sem fyrirlestur Berglindar Blöndal næringarfræðings var vel sóttur.

Innan félagsins starfar virkur stuðningshópur sem kallast Brosið. Hann er opinn öllum sem vilja sækja jafningjastuðning, sækja viðburði eða taka þátt í starfinu á annan hátt. Hópurinn hittist að jafnaði hálfsmánaðarlega yfir starfsárið og er áhersla lögð á að skapa notalegt umhverfi og taka öllum opnum örmum. Hópurinn er ætlaður hverjum þeim sem glímir við eða hefur glímt við krabbamein og aðstandendum þeirra.

Krabbameinsfélag Árnessýslu er eitt virkasta svæðafélagið á Suðurlandi og mikill vilji til að efla starfsemi þess enn frekar því þörfin fyrir stuðning og þjónustu í heimabyggð er sannanlega fyrir hendi. Félagið hefur notið einstakrar velvildar og gjafsemi nærsamfélagsins, bæði í hugsun og verki. Félagið er rekið á félagsgjöldum sem innheimt eru árlega, gjaldið er 2.500 krónur og hefur haldist óbreytt síðustu ár. Auk þess hefur félagið notið verkefnastyrks frá Krabbameinsfélagi Íslands til að geta aukið þjónustu við sína félagsmenn í heimabyggð og hlotið gjafir frá einstaklingum, hópum og félögum. Félagið hefur notið samstarfs og samvinnu við mörg fyrirtæki og félög á svæðinu og lagt áherslu á að nýta þann auð sem býr í samfélaginu. Félagið er innilega þakklátt fyrir þetta góða samstarf og þá velvild sem félagið nýtur.

Nýtt starfsár hefst í byrjun september og eru nú þegar margar hugmyndir komnar á blað um viðburði og þjónustu sem vilji er til að bjóða upp á auk þess sem ný markmið eru sett. Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur það að markmiði fyrir starfsárið 2018–2019 að efla enn frekar stuðning og þjónustu við þá sem greinst hafa með krabbamein og leggja áherslu á að efla þjónustu við aðstandendur þeirra.

Að lokum vill félagið minna á að hægt er að hafa samband við starfsmann félagsins í síma 788 0300 eða á netfangið arnessysla@krabb.is.

Kærar þakkir fyrir skemmtilegt starfsár,

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður.

Nýjar fréttir