-0.5 C
Selfoss

Gjörningur og opnun sýningar í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Laugardaginn 23. júní nk. kl. 15:00 verður fluttur gjörningur og kl. 16:00 verður sýningin Hveragerði – aðsetur listamanna opnuð í Listasafni Árnesinga og eru allir velkomnir.

Komið er að síðari gjörningnum, Samtal milli striga og kontrabassa á sýningunni HVER/GERÐI – Sigrún Harðaradóttir. Þar málar Sigrún með sérútbúnum trommukjuðum og spaða á striga, sem lagður er á sérsmíðan trommubotn, í samverkandi gjörningi með tónlistarmanni sem spilar á kontrabassa. Á fyrri gjörningnum, við opnun sýningarinnar, var það Leifur Gunnarsson sem lék á móti Sigrúnu en nú er það Alexandra Kjeld sem spilar á kontrabassa. Málverkin sem skapast ásamt upptöku af gjörningunum verða síðan hluti sýningarinnar.

Sigrún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1978–82, framhaldsnám við Ríkislistaakademíuna í Hollandi 1982–86 og við Québec Háskólans í Montreal, Kanada, þaðan sem hún lauk meistaragráðu í margmiðlun með áherslu á gagnvirkar innsetningar árið 2005. Sirgún er meðal frumkvöðla í notkun nýmiðla í myndlistarsköpun og þrónun gagnvirkra verka. Á starfsferli sínum hefur Sigrún lengstum búið og starfað erlendis en er nú búsett á Íslandi.

Alexandra Kjeld kontrabassaleikari hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi, spilað og sungið með ýmsum hópum, sígildum og rytmískum, í gegnum árin. Hún nam um árabil við Tónlistarskólann í Reykjavík og tónlistarskóla FÍH og lauk BA gráðu í tónlistarfræði við Sorbonne háskólann í París. Alexandra er einn stofnenda tónlistarhópsins Umbru.

Listamannabærinn Hveragerði

Hvernig getur arkitektúr fléttað saman stað og starfsemi og fest í sessi listamannabæinn Hveragerði? Nemendur Listaháskóla Íslands í arkitektúr sem úrskrifuðust í vor glímdu við það verkefni í lokaverkefnum sínum og á sýningunni Hveragerði – aðsetur listamanna má sjá afraksturinn.

Nemendur áttu að hanna residensíu sem býður upp á dvalar-, vinnu- og sýningarstað fyrir listamenn. Hún skyldi staðstett innan bæjarmarka Hveragerðis og starfsemin þar átti að einhverju leyti að tengjast auðlindum, innviðum, og sérkennum staðarins. Nemendur ákváðu staðsetningu, vægi og fjölda bygginga og bar að rökstyðja nálgun sína með vísun í verkefnið og staðinn. Nemendum var einnig frjálst að velja hvort þeir nýttu sér mannvirki bæjarins, og prjónuðu á einhvern hátt við þau og þá starfsemi sem fyrir er, eða hvort þeir völdu að nálgast residensíuna sem stakstætt/stakstæð mannvirki.

Áhersla var lögð á að nemendur sköpuðu heildræna sýn á verkefnið og sýndu hvernig hið manngerða umhverfi er hugsað í samhengi við hlutverk sitt og samfélagið í Hveragerði.

Sýningarnar munu standa til og með 6. ágúst. Safnið er opið alla daga kl. 12–18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir.

Nýjar fréttir