Á þessu ári fagnar leikskólinn Heklukot á Hellu sjötta árinu sínu sem Grænfánaleikskóli. Af því tilefni fékk leikskólinn afhentan fjórða Grænfánann á vorhátíð foreldrafélagsins sem haldin var þann 24.maí síðastliðinn. Börnin af elstu deildinni tóku við fánanum uppi á sviði ásamt tveimur starfsmönnum elstu deildarinnar og leikskólastjóra.
Íþróttaálfurinn og Solla stirða mættu hress eftir afhendingu fánans og skemmtu krökkunum. Fimleikadeildin sá um andlitsmálningu og þrautabraut. Í lokin fengu allir grillaðar pylsur og svala.
Í Heklukoti er flokkað plast, pappír og reynumt að minnka matarsóun eins mikið og hægt er. Notaðir eru fjölnota pokar fyrir óhrein föt barnanna sem foreldrar skila síðan hreinum í leikskólann. Pokar utan af bleyjum eru nýttir sem ruslapokar í ruslatunnur. Í stað þess að vera með bréfþurrkur til að þurrka hendur eftir handþvott eru notuð niðurklippt handklæði sem eru síðan þvegin og notuð aftur.
Starfsfólk og leikskólabörn hlakkar til að halda áfram því frábæra starfi sem unnið er í Heklukoti.