-10.9 C
Selfoss
Home Fréttir Kulnun eða meðvikni?

Kulnun eða meðvikni?

0
Kulnun eða meðvikni?
Berglind Magnúsdóttir.

Kulnun er hugtak notað um þann einstakling sem komin er á síðasta stig vinnustreitu. Vinnustreita hefur verið skilgreind sem tilfinningaleg viðbrögð einstaklings við of miklu álagi og getur sú streita bæði verið skaðleg líkamlega og andlega sé hún langvarandi. Vinnustreita fæðist í umhverfi þar sem kröfur eru miklar, úrræðin fá og áköf samskipti eiga sér stað við síbreytilegan hóp skjólstæðinga í langan tíma. Fagmenn hafa komið sér saman um þríþætta birtingarmynd kulnunar sem eru 1) tilfinningaleg örmögnun, 2) neikvæð upplifun eða hrokafull framkoma gagnvart skjólstæðingum og 3) neikvæð upplifun á afrekum sínum. Aðrar birtingarmyndir kulnunar eru t.d aukning á reiði, hroki, verkkvíði, einangrun, vanmáttur að leita sér hjálpar, vonleysi og þunglyndi. Með þessari upptalningu sést að erfitt getur verið að greina hvort kulnun sé til komin úr starfsumhverfi eða einkalífi fólks.

Meðvirkni er umdeilt hugtak sem kom fyrst fram um 1980. Meðvirkni hefur verið álitin lærð hegðun arfleidd milli kynslóða þar sem óheilbrigð vannærandi samskipti og kringumstæður hafa verið til staðar í uppvextinum með þeim afleiðingum að á fullorðinsaldri bregst einstaklingurinn óeðlilega við í eðlilegum aðstæðum. Birtingarmyndir meðvirkni eru t.d. 1) neikvæðar stjórnunar aðferðir, 2) reiði eða bræði, 3) að setja aðra á stall, 4) fíknivandi, skapgerðarbrestir, 5) vandi í samskiptum, 6) markaleysi, einangrun, 7) óheiðarleiki, 8) ósjálfstæði og 9) vandi í tilfinningalegum samböndum.

Áhugavert er að skoða tengsl kulnunar og óuppgerðra tilfinninga úr uppvextinum. Ef birtingarmyndir kulnunar eru bornar saman við birtingarmyndir meðvirkni má sjá margt líkt með einkennunum. Kulnunareinkennin tilfinningaleg örmögnun, hrokafull framkoma, neikvæð upplifun á afrekum sínum, reiði, einangrun og þunglyndi eru allt einkenni meðvirkni.

Höfundur greinarinnar er ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og menntaður uppeldis og áfallastreitufræðingur Piu Mellody.

 

Berglind Magnúsdóttir,
ráðgjafi hjá
Fyrsta Skrefinu