-1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Eydís áfram sveitarstjóri Flóahrepps

Eydís áfram sveitarstjóri Flóahrepps

0
Eydís áfram sveitarstjóri Flóahrepps
Eydís Þ. Indriðadóttir, sveitarstjóri Flóahrepps.

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fyrsta fundi sínum þann 13. júní, með 3 atkvæðum gegn 2, að Eydís Þ. Indiriðadóttir yrði áfram sveitarstjóri hreppsins.

Í fundargerð sveitarstjórnar kemur fram að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga hafi verið óvissa um hvort núverandi sveitarstjóri Flóahrepps, Eydís Þ. Indriðadóttir, hefði hug á að framlengja starf sitt hér.

Í fundargerðinni segir: „Nú liggur hins vegar fyrir vilji Eydísar til að sinna starfinu áfram næsta kjörtímabil. Í ljósi þess að hún hefur sinnt störfum sínum af samviskusemi, metnaði og verið okkur til sóma þar sem hún hefur komið fram fyrir okkar hönd leggjum við undirrituð til að Eydís Þ. Indriðadóttir verði ráðin sveitarstjóri Flóahrepps til næstu fjögurra ára og föllum jafnframt frá áformum um að auglýsa stöðu sveitarstjóra. Ráðningasamningur verði framlengdur um fjögur ár. Samningur verður óbreyttur að undanskildum föstum akstursgreiðslum sem falla niður, að ósk Eydísar. Sveitarstjóra verður greiddur akstur í þágu sveitarfélagsins samkvæmt akstursdagbók.“

Fulltrúar Flóalistans, þau Árni Eiríksson, Hrafnkell Guðnason og Margrét Jónsdóttir samþykktu að Eydís verði ráðin sveitarstjóri Flóahrepps til næstu fjögurra ára.

Ráðningarsamningur við sveitarstjóra verður framlengdur, föst greiðsla vegna aksturs fellur niður og akstur verður greiddur samkvæmt akstursdagbók. Tillaga oddvita er að laun sveitarstjóra verði uppfærð samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar 1. nóvember ár hvert við greiðslu launa 1. desember á hvert. Hækkanir munu ekki fylgja hækkun á  þingfararkaupi eins og eldri samningur gerir ráð fyrir. Oddvita var falið að ganga frá
ráðningarsamningi við Eydísi.

Fulltrúar T-listans, þau Rósa Matthíasdóttir og Sigurður Ingi Sigurðsson, greiddu atkvæði gegn tillögunni og bókuðu eftirfarandi:
„Stefna beggja lista fyrir síðustu sveitastjórnarkosninga var skýr um að auglýsa skyldi starf sveitarstjóra Flóahrepps. Sætir það því mikilli furðu þessi kúvending F-listans. Það er skýlaus krafa T-listans að staða sveitarstjóra sé auglýst og staðið sé við gefin loforð. T-listinn samþykkir því ekki þessa ráðningu.“

Bókun F-lista:
„Ástæða þess að við fulltrúar Flóalistans föllum frá að auglýsa starf sveitarstjóra er að eftir kosningar upplýsti sveitarstjóri okkur um að hún sé tilbúin að starfa næsta kjörtímabil. Það væru fráleit vinnubrögð að horfa framhjá starfandi sveitarstjóra, hæfum starfsmanni með reynslu, þekkingu og öllum málum kunnug eftir fjögurra ára starf hjá okkur. Mað hagsmuni
sveitarfélagsins og íbúa að leiðarljósi tökum við því ákvörðun um að framlengja ráðningarsamning sveitarstjóra um fjögur ár.“