-4.3 C
Selfoss

Íþróttahúsin munu nýtast betur við flutningana

Vinsælast

Í síðasta mánuði var hafist handa við að skipta um gólf í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Er það fyrsta skrefið í breytingum sem felast í því að handknattleiksdeild Selfoss flytur sig um set úr íþróttahúsi Vallaskóla yfir í Iðu. Samhliða flytja Selfoss-karfa, frjálsíþróttadeild Selfoss, knattspyrnudeild Selfoss og Íþróttafélagið Suðri starfsemi sína yfir í Vallaskóla.

Að sögn Braga Bjarnasonar, menningar- og frístundafulltrúa Árborgar, er meginástæðan fyrir þessum breytingum sú að samkvæmt kröfu HSÍ var íþróttahús Vallaskóla of lítið fyrir handboltann og ekki löglegt. „Húsið er búið að vera á undanþágu í mörg ár. Þannig að við urðum eiginlega að fara í þetta. Bónusáhrifin við flutningana er að við getum nýtt fermetrana betur. Handboltinn getur æft í Iðu í tveimur hlutum þó þetta séu ekki alveg tveir vellir og karfan og frjálsar geta svo nýtt þrjú bil í Vallaskóla betur til æfinga hjá sér. Þannig að við ættum að nýta húsin betur, sem er mjög jákvætt,“ segir Bragi.

Allur handbolti yfir í Iðu
Stefnt er að því að handknattleiksdeildin fari yfir í Iðu og verði þar með allar sínar æfingar þ.e. alla flokka. Deildin byrjaði í maí að vinna aðeins með Sveitarfélaginu og Ríkiseignum, sem eiga húsið, við það að fjarlægja parketið af gólfinu. Að sögn Braga verður byrjað í júní á að undirbúa fyrir parketlögn. Allur júní og líklega fram í júlí fer síðan í parketlögnina. Til stendur að ný áhorfendastúka komi og verði sett upp seinnipart sumars. Hún verður með tveimur röðum meira en sú sem var fyrir þannig að hún á að rúma svipaðan áhorfendafjölda og í Vallaskóla eða 600–750 manns. „Þetta verða bekkir þannig að það á væntanlega eftir að koma í ljós hvað stúkan kemur til með að taka marga. Stúkan verður veggfest og hægt að draga hluta hennar inn til að fá meira pláss við æfingar og kennslu í húsinu. Við eigum síðan eftir að vinna nánar með deildinni að lausnum varðandi blaðamannastúku, myndatökuaðstöðu og svoleiðis. Við vitum nokkurn veginn hvernig við ætlum að gera það en eigum aðeins eftir að útfæra það betur. Sama á við um nýja leikklukku sem verður sett upp seinna í sumar. Deildin er aðeins byrjuð að koma sér fyrir og síðan kemur þetta bara eitt af öðru,“ segir Bragi.

Karfa, frjálsar, fótbolti og Suðri í Vallaskóla
Við skiptin fara þær greinar sem voru í Iðu með allar sínar æfingar yfir í íþróttahús Vallaskóla. Þar er um að ræða körfuknattleiksfélagið, frjálsíþróttadeildina og Íþróttafélagið Suðra. Einnig er gert ráð fyrir að fótboltinn verði þar líka eitthvað með inniæfingar. Bragi segir að undirbúningur fyrir nýtt knatthús sé í vinnslu þannig að væntanlega fari stór hluti af frjálsíþróttum og fótboltanum yfir í það hús þegar að því kemur því þar verði inniæfingaaðstaða fyrir báðar greinar. Bragi segir að það geti orðið eftir næsta vetur. Við það ættu einnig að opnast fleiri möguleikar fyrir almenningsíþróttir, blak, badminton og fleira.

„Í Vallaskóla verða ýmsar framkvæmdir og þá aðallega fyrir körfuna. Þar eru gamlar körfur sem við munum skipta út. Einnig verður gólfið og línurnar lagaðar þannig að það henti þeim greinum sem eru að koma þar inn. Fyrir frjálsar verður sett upp kastnet og svo er verið að skoða hvað þarf af búnaði og öðru slíku til að allar greinar geti notið sín og í raun í báðum húsunum,“ segir Bragi.

Reynum að láta áætlanir standast
„Varðandi tímasetningar og flutninga sáum við strax að fyrstu plön myndu ekki standast. Það eru seinkanir eins og gerist í þessu öllu, hlutir komast ekki í gám og eitthvað álíka. Í júlí ættu samt bæði hús að vera orðin hæf til æfinga. Síðan með haustinu klárum við allt sem þarf fyrir keppnistímabilin, þannig að leikklukka, blaðamannaaðstaða og annað verður þá væntanlega klárað í ágúst eða september. Grunnurinn er að allt verði klárt fyrir fyrstu leiki bæði handboltinn í Iðu og körfuboltinn í Vallaskóla. Við sjáum ekkert því til fyrirstöðu,“ segir Bragi.

Heilt yfir segir Bragi forsvarsmenn greinanna hafa tekið vel í þessa flutninga. Auðvitað séu skiptar skoðanir og kannski mestmegnis tilfinningar. „Menn eru búnir að æfa í sama húsinu í mörg ár og erfitt að skilja við það. Ég skil það bara mjög vel. Svo eru líka plúsar og mínusar við aðstöðurnar. Í Iðu er góð lyftingaaðstaða en í Vallaskóla smávegis aðstaða en miklu minni. Það hefur auðvitað einhver áhrif en það eru kostir og gallar báðum megin. Flestir hafa verið að vinna í lausnum og að þetta bæti aðstöðuna frekar en hitt. Það eiga samt allir að sjá bætta aðstöðu í þessu á einhvern hátt. Mér heyrist það líka, sem er mjög jákvætt.“

Unnið í samráði við notendurna
„Við höfum reynt að vinna þetta í samráði við félögin og deildirnar þannig að þær hafi alltaf eitthvað um þetta að segja. Við erum búin að tala um þetta í 2–3 ár með handboltanum eða frá því að HSÍ setti pressuna á okkur fyrir alvöru. Það var engin pressa af hálfu sveitarfélagins þannig séð. Við vildum líka leyfa félaginu að stýra þessu að mestu sem hefur reynst okkur vel. Heildarkostnaður vegna þessara flutninga þ.e. í báðum húsunum er líklega einhvers staðar á bilinu 55 til 60 milljónir króna. Það liggur m.a. í nýju gólfefni, stúku og klukku í Iðu, ásamt nýjum körfum í Vallaskóla,“ segir Bragi að lokum.

Nýjar fréttir