2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Hvað segja formennirnir um flutningana á Selfossi?

Hvað segja formennirnir um flutningana á Selfossi?

0
Hvað segja formennirnir um flutningana á Selfossi?

Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Umf. Selfoss og Gylfi Þorkelsson, formaður Selfoss-körfu, voru spurðir hvað flutningar handboltans í íþróttahúsið Iðu og körfuboltans í íþróttahús Vallaskóla feli aðallega í sér fyrir þeirra félög. Einnig hvort það væri eitthvað sem þeir muni gera eða breyta hjá sér í tengslum við flutningana.

Þórir Haraldsson:
Tækifæri til að gera betur

Þórir haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Umf. Selfoss.

„Við neyðumst auðvitað til flutninga af því að salurinn í Vallaskóla er of þröngur fyrir nauðsynlegt öryggissvæði fyrir leikmenn en úr því húsi eiga leikmenn og áhorfendur margar góðar minningar. Megin breytingin við að flytja í Iðu er að áhorfendur geta betur notið þess að horfa á leiki og með því að áhorfendabekkir eru útdraganlegir þá verður meira pláss til æfinga í fjölmennum yngri flokkum deildarinnar. Því miður lítur samt út fyrir að iðkendur okkar þurfi að æfa fram til kl. 10 öll kvöld, sem er auðvitað varla boðlegt fyrir unglinga á skólaaldri.
Stóra verkefni deildarinnar og áhugafólksins er auðvitað að flytja frábæra stemningu og stuðning inn í Iðu og búa þar til öflugan heimavöll sem skilar árangri og ánægju fyrir alla sem að koma. Yngri flokkarnir fá betri æfinga- og keppnisaðstöðu á stærra gólfi og nálægð við keppnina verður meiri, bæði í yngri og eldri aldursflokkum. Þá styttist auðvitað í félagsaðstöðuna á íþróttavellinum sem því miður er ekki pláss fyrir í Iðu en deildin lítur á flutninginn sem tækifæri til að gera betur fyrir iðkendurna.“

Gylfi Þorkelsson:
Allir spenntir fyrir nýjum tímum

Gylfi Þorkelsson, formaður Selfoss-körfu.

„Á þessu eru jákvæðar hliðar. Í fyrsta lagi verður íþróttahús Vallaskóla endurnýjað, settar upp nýjar körfur og gólfið málað fyrir körfubolta. Þetta verður glæsilegt körfuboltahús. Í öðru lagi getum við verið með fleiri hópa við æfingar í einu, það eru þrír vellir í Vallaskóla en bara tveir í Iðu. Í þriðja lagi mun flutningurinn breyta miklu fjárhagslega, skapa aukna möguleika á auglýsingastyrkjum. Fjölbrautaskólinn hefur staðið í vegi fyrir körfuboltafélaginu hvað það varðar í Iðu, þó skyndilega megi setja auglýsingar þar á gólf og veggi þegar við förum. Auðvitað söknum við Iðu en allir innan félagsins eru jafnframt spenntir fyrir nýjum tímum. Það hefur hjálpað mikið til að sveitarfélagið hefur sýnt skilning og góðan vilja til að þessar breytingar verði snuðrulausar og jákvæðar fyrir alla aðila. Við erum spennt og getum ekki beðið að byrja á nýjum heimavelli.“