2 C
Selfoss
Home Fréttir Mikið um að vera í Skálholti í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands

Mikið um að vera í Skálholti í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands

0
Mikið um að vera í Skálholti í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands stendur Skálholtsstaður fyrir röð viðburða þar sem boðið verður upp á ýmsan fróðleik sem tengist sögu staðarins. Viðburðirnir eiga sér stað milli kl. 19:30 og kl. 21.00.

Fyrsti viðburðurinn verður 20. júní, en þá mun Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur ganga um nágrenni Skálholtsstaðar og fræða fólk um ýmsar tegundir plantna, ekki síst þær sem tilheyra íslensku flórunni. Opið öllum, endilega mæta með bók um flóru Íslands.

Fimmtudaginn 21. júní mun svo Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar og höfundur Fuglavísis, leiða fuglaskoðun í Skálholti. Varptíminn stendur sem hæst og má búast við að sjá ýmsa algenga mófugla og skógarfugla í göngunni. Jóhann Óli mun jafnframt segja frá fuglalífi í Tungunum og benda á helstu skoðunarstaði. Hafið með ykkur sjónauka.

Miðvikudaginn 4. júlí ætlar Bjarni Harðarson svo að bjóða uppá sögugöngu. Bjarni er bóksali á Selfossi, fyrrverandi blaðaútgefandi og var alþingismaður um skamma hríð. Hann er fjögurra barna faðir, Tungnamaður, óforbetranlegur fornaldardýrkandi, þjóðfræðinemi og umhverfissinni fram í fingurgóma.