2.3 C
Selfoss

Mikil gróska í starfi Krabbameinsfélags Árnessýslu

Vinsælast

Mikil gróska hefur verið í starfi Krabbameinsfélags Árnessýslu á starfsárinu 2017–2018. Félögum hefur fjölgað, virkni hefur eflst og úrval fagþjónustu, námskeiða og fyrirlestra hefur aukist.

Í upphafi starfsárs var lögð áhersla á að auka þjónustu í heimabyggð og að færa bæði fræðslu og stuðning heim í hérað svo ekki þyrfti að sækja mest alla þekkingu og þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Auk þess að vera með hóphitting hálfsmánaðarlega í stuðningshópnum Brosinu, hefur félagið boðið upp á fyrirlestra og námskeið sem oftar en ekki hafa staðið öllum til boða. Auk þess að geta sótt stuðning, félagsskap og ráðgjöf til félagsins geta félagar sótt jóganámskeið hjá Yogasálir í boði félagsins.

Í maí bauð félagið í samstarfi við Golfklúbb Selfoss, félögum upp á golfkennslu sem lauk með 9 holu golfmóti og grillveislu. Framundan eru einnig reglulegar gönguferðir sem hófust í maí og var þá gengið frá húsnæði Rauða krossins á Selfossi kl. 11:30 á sunnudagsmorgnum. Þess má geta að sunnudaginn 13. maí var gengið með fram Ölfusá og endað í Guðnabakarí þar sem gætt var sér á Brjóstabollunni sem Landsamband Bakarameistara selur til styrktar rannsóknum á brjóstakrabbameini.

Félagið hefur notið velvildar almennings, félaga og fyrirtækja á starfsárinu og hlotið marga og góða styrki. Ágóði af sölu súpu í kjölfar bleikrar mesu var afhentur af félögum Kirkjukórsins og Kvenfélag Skeiðahrepps færði félaginu ágóða sem safnaðist í bleiku þema félagsins í október. Sunnlækjarskóli ánefndi félaginu ágóða af góðgerðardögum sem haldnir voru í desember og safnaðist rúm milljón sem veitt var félaginu sem styrkur. Félagið fékk úthlutaðan styrk frá Krabbameinsfélagi Íslands til þróunar á úrræðum og aukinnar þjónustu í heimabyggð.

Markmið félagsins er að eflast enn frekar, stuðla að aukinni virkni félaga og vera öflugur stuðningsaðili fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Starfsmaður félagsins er Erla Sigurjónsdóttir og er hægt að hafa samband við hana í síma 788 0300 (á fimmtudgöum) eða á netfangið arnessysla@krabb.is. Einnig er félagið með virka Facebook-síðu þar sem hægt er að senda starfsmanni og formanni félagsins skilboð.

Nýjar fréttir