-8.3 C
Selfoss

Listaverkið Fósturlandsins Freyja í FSu

Vinsælast

Á vordögum 2017 kviknaði sú hugmynd hjá tveimur kennurum Fjölbrautaskólans á Selfossi, Guðbjörgu Dóru Sverrisdóttur íslenskukennara og Ágústu Ragnarsdóttur myndmenntakennara, að hægt væri að bæta hljóðvistina á kaffistofu starfsmanna skólans með prjónuðu listaverki. Um leið gæti vinna við slíkt verkefni verið til þess fallin að þjappa starfsfólki enn frekar saman í slíku skemmtilegu og nytsömu verkefni. Um sumarið og í byrjun hausts var hugmyndin því þróuð og útfærð svo hægt væri að prjóna eftir henni á sem auðveldastan hátt og að sem flestir gætu tekið þátt í verkefninu.

Ákveðið var að listaverkið yrði um tólf fermetrar að stærð, prjónað úr íslenskri ull og myndi sýna íslenska náttúru í allri sinni dýrð. Grunnhugmyndin er sótt í Jarlhetturnar.

Mikil undirbúningsvinna liggur að baki vel unnu verkefni og allir endar þurfa að vera hnýttir áður en lagt er af stað. Þeirri vinnu var lokið í byrjun október. Strax í kjölfarið var farið að afhenda starfsfólki tilbúna prjónapakka með munstri og garni. Þar með hófst prjónaskapur starfsfólks. Það var mikill fjöldi starfsmanna sem kom að verkefninu á einn eða annan hátt, eða um 80 manns.

Allan veturinn mátti sjá starfsmenn grípa til prjóna þegar tækifæri gafst til þess. Vinsælt var að prjóna á vikulegum kennarafundum en einnig á kaffistofunni og jafnvel stöku sinnum í vinnuherbergjum kennara. Mest prjónavinna fór þó að sjálfsögðu fram heima.

Í upphafi var áætlað að verkið tæki tvö ár, en þegar líða tók að vori var myndin nánast fullprjónuð. Þá hófst einn af mikilvægari þáttum verkefnisins, uppsetning, fóðrun og frágangsvinna. Um skipulag lokafrágangs sá textílkennari skólans, Helga Jóhannesdóttir.

Á síðasta kennarafundi vetrarins var verkið, sem kallast Fósturlandsins Freyja, afhent skólanum til varðveislu. Þetta metnaðarfulla listaverk var hengt upp á svölum skólans þar sem það var til sýnis við útskriftina en verður síðan varðveitt á kaffistofu starfsmanna.

Nýjar fréttir