2.3 C
Selfoss

Sigurtillaga sem snýr að Þorlákshöfn

Vinsælast

Í liðinni viku fór fram í Garðyrkjuskólanum í Ölfusi kynning á hugmyndum í hugmyndasamkeppni Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Orku náttúrunnar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um nýtingu varmaorku á Suðurlandi.

Sigurtillagan sem unnin var af Marteini Möller og Reynar Ottóssyni gerir ráð fyrir uppbyggingu á baðlóni í Þorlákshöfn með svartan sand sem sérkenni og snertingu við hafið. Í umsögn dómnefndar segir m.a. „Tillagan er vel unnin og samnýtir á áhugaverðan hátt staðbundnar auðlindir. Tillagan er hvorutveggja í senn frumleg og raunhæf. Gert er ráð fyrir stóraukinni jarðvarmanýtni og minni sóun. Um er að ræða aðdráttarafl fyrir ferðamenn með samspili sjávar, fjöru og jarðhita í umhverfi þar sem myrkur, norðurljós og íslensk náttúra njóta sín. Auk þess býður tillagan upp á vaxtartækifæri með frekari tengingu við heilsueflingu, vellíðan og íþrótta- og útivistarfólk.“

Tækifærin í Ölfusi í tengslum við ferðaþjónustu eru mörg og ljóst að ef hugmynd sem þessi verður að veruleika mun ferðaþjónusta á svæðinu vaxa verulega.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti verðlaunin. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun veita höfundum tillögunnar aðstoð við frekari þróun viðskiptahugmyndarinnar og Orka náttúrunnar mun einnig bjóða höfundum vinningstillögunnar upp á ráðgjöf frá sérfræðingum Veitna sem er systurfyrirtæki Orku náttúrunnar.

Nýjar fréttir