Fulltrúar fjögurra flokka sem fengu kjörna fulltrúa í bæjarstjórn Árborgar hafa hafið viðræður um myndun nýs meirihluta. Þar er um að ræða fulltrúa Framsóknar og óháðra, Samfylkingar, Áfram Árborgar og Miðflokksins. Saman hafa þessir flokkar fimm fulltrúa á móti fjórum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins.
Í sameiginlegri yfirlýsingu frá flokkunum fjórum segir:
„Úrslit kosninga sýna að kjósendur í Svf. Árborg hafa hafnað áframhaldandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins og því eðlilegt að láta reyna á að nýr meirihluti verði myndaður án hans. Við undirritaðir oddvitar framboða Framsóknar og óháðra, Miðflokksins, Áfram Árborg og Samfylkingarinnar höfum ákveðið að hefja viðræður um myndun nýs meirihluta í Svf. Árborg. Á meðan á þeim viðræðum stendur munum við ekki ræða við aðra flokka um myndun nýs meirihluta.“
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta sínum í kosningunum, hlaut fjóra fulltrúa, tapaði einum. Flokkurinn fékk 38,3% fylgi. Samfylkingin fékk 20,1% og tvo fulltrúa, Framsókn og áháðir 15,5% og einn fulltrúa, Miðflokkurinn 10,7% og einn fulltrúa og Áfram Árborg 8,5% og einn fulltrúa. Vinstri grænir fengu 7% og engan bæjarfulltrúa.