-8.3 C
Selfoss

Það sem ég lærði sem sveitarstjórnarmaður

Vinsælast

Ég er þakklátur fyrir það tækifæri sem ég fékk með því að vera kjörinn í sveitarstjórn. Margt gott hefur lærst á þessum árum og skilningur á verkefnum samfélagsins er meiri og betri en áður.

Hef oft vel því fyrir mér hvað ég hefði viljað sjá með öðrum hætti og hverju ég tel mikilvægt að breyta. Það þarf að breyta „hlutverkum“ meiri- og minnihluta í sveitarstjórnum. Við þurfum að nálgast verkefni sveitarstjórnar meira út frá því að í sveitarstjórn hafa valist einstaklingar sem hafa allir jafnan áhuga á velferð síns samfélags. Aðilar sem hafa ólíka reynslu, menntun og hæfileika. Það er sveitarstjórnar að leggja sig fram um að nýta þá reynslu og hæfileika til jafns. Ekki að halda málum og verkefnum að meirihluta og frá minnihluta.

Við ættum að breyta á þann hátt að það sé óheimilt að kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn geti gengt starfi, sveitarstjóra/framkvæmdastjóra/bæjar- eða borgarstjóra. Það er eðlilegt í nútíma samfélagi að aðgreina með skýrum hætti á milli kjörinna fulltrúa og ráðinna starfsmanna. Með skýrri aðgreiningu er jafnræði kjörinna fulltrúa betur tryggt og ábyrgðamörk skýr.

Sveitarstjórnarmönnum á og ber að taka afstöðu með eða á móti í málum en eiga ekki að geta „skilað auðu“ þegar það kann að henta og þá setið hjá. Það er á sama hátt æskilegt að sveitarstjórnarmenn gerðu oftar grein fyrir afstöðu sinni með stuttri bókun og/eða í almennum skrifum. Hinn vandrataði vegur samfélagsmiðla hefur opnað nýja möguleika fyrir sveitarstjórnarmenn, íbúa og sveitarfélög. Aðgengi íbúa að upplýsingum þarf að auka til mikilla muna með því að efla rafræna stjórnsýslu. Þannig má betur tryggja að umræður og fullyrðingar um menn og málefni byggi á staðreyndum og rökum, en ekki sögusögnum. Með opinni stjórnsýslu má draga úr tortryggni og efla samkennd.

Sú staða er ekki góð fyrir neinn að sveitarfélög og undirstofnanir séu að hafa eftirlit með sjálfu sér. Þetta á sér t.d. stað á sviði heilbrigðiseftirlits, eldvarna, félagsþjónustu og málefna fólks með fötlun svo nokkur dæmi séu tekin. Sveitarfélagið er þá í raun í þeirri stöðu að fjármagna rekstur, veita þjónustuna og að hafa eftirlit með henni/sjálfu sér. Það þarf að finna leið til að breyta þessu.

Eftilit með fjármálum sveitarfélaga er nauðsynlegt, en núverandi fyrirkomulag er því miður meira í orði en á borði og tilgangslítið. Ríkisendurskoðun er öflug stofnun sem hefur reynst vel á vettvangi ríkis og ríkisstofnanna. Það eru öll rök fyrir því að Ríkisendurskoðun verði efld til muna og að hlutverk hennar nái einnig yfir sveitarfélög og starfsemi á sveitarstjórnarstiginu.

Byggðasamlög og mörg af samstarfsverkefnum sveitarfélaga eru praktísk úrræði, sem í eðli sínu eru and-lýðræðisleg. Aðgengi kjörinna fulltrúa að þeim er takmarkað og enn fjarlægar kjósendum. Byggðasamlög ætti aðeins að vera hægt að setja upp sem tímabundið úrræði, enda eru þau helst sett á stofn þegar sveitarfélög eru of lítil til að takast á við lögbundið hlutverk sitt.

Mikilvægasta verkefni næstu ára er sameining sveitarfélaga. Sveitarfélög verður að efla og það er best gert með því að stækka þau. Smæð sveitarfélaga hamlar nauðsynlegri þróun sveitarstjórnarstigsins. Með stærri sveitarfélögum skapast auk þess forsendur til þess að gera auknar kröfur á kjörna fulltrúa, skapa þeim betri aðstöðu til vinnu sinnar og verkefna. Þar með talið að greiða kjörnum fulltrúum góð laun fyrir vinnu sína.

Það er stór hópur fólks sem er að leggja sig fram um að gera samfélag okkar betra á sveitarstjórnarstiginu. Við þurfum að gera umgjörðin betri til að gera þennan vettvang eins spennandi og aðgengilegan og hægt er.

Það er vel þess virði að vinna á vettvangi sveitarstjórnarmála og sá vettvangur er öllum opinn.

Takk fyrir mig.
Guðmundur Ármann

Nýjar fréttir