-3.2 C
Selfoss
Home Fréttir Kjósum um framtíðina – breytinga er þörf

Kjósum um framtíðina – breytinga er þörf

0
Kjósum um framtíðina – breytinga er þörf
Helgi S. Haraldsson.

Á lista Framsóknar og óháðra Í Sveitarfélaginu Árborg er hópur fólks á öllum aldri og úr ýmsum stéttum samfélagsins. Fólk sem hefur brennandi áhuga á framtíð sveitarfélagsins og vill leggja sitt af mörkum til að móta hana og taka þátt í að skapa góð búsetuskilyrði fyrir alla. Við teljum að betur megi gera á mörgum sviðum og bjóðum þess vegna fram krafta okkar til þess. Undanfarin ár hefur einn flokkur verið með hreinan meirihluta og bæjarstjóra úr röðum sinna bæjarfulltrúa. Við teljum að það hafi komið berlega í ljós að það er ekki heppileg blanda og ákvarðanataka eigi sér oft á tíðum stað án umræðu og aðkomu fleiri aðila sem á móti skapi breiðari sjónarmið og meiri sátt um niðurstöðu mála. Breytinga er þörf, það hefur skort á framtíðarsýn og skipulag. Of mikill tími fer í að „redda málum“ á síðustu stundu þegar allt er komið í óefni, í stað þess að hafa áætlanir og skipulag tilbúið tímanlega og vinna svo efir því. Gott dæmi er bygging nýs skóla og fjölgun leikskólaplássa, framkvæmdir við fráveituna, skipulag við nýja brú yfir Ölfusá, uppbygging íþróttamannvirkja, skipulag miðbæjarins, lóðir undir atvinnustarfsemi, og svo mætti lengi telja. Það gerist alltof lítið og alltof seint. Þessu viljum við breyta og skapa sátt meðal íbúa um framtíð okkar og uppbyggingu samfélagsins.

Stefnumál okkar má finna á facebook síðunni, Framsókn og óháðir og á Framsokn.is. Við skorum á þig að kynna þér þau og sjá hvort þú eigir ekki samleið með okkur og setjir X við B á kjördag, fyrir framtíð Árborgar.

 

Helgi Sigurður Haraldsson, skipar 1. sæti á lista Framsóknar og óháðra í Svf. Árborg.