-8.7 C
Selfoss
Home Fréttir Áfram Árborg – til framtíðar

Áfram Árborg – til framtíðar

0
Sigurjón Vídalín Guðmundsson.
Álfheiður Eymarsdóttir.

Sveitarfélagið okkar stendur á krossgötum. Tími skammtímalausna er liðinn. Við teljum brýna þörf á endurnýjun í sveitarstjórn. Við í Áfram Árborg höfum skýra framtíðarsýn, kjark og vilja til að breyta.

Sveitarfélagið Árborg hefur burði til að vera fyrirmyndarsveitarfélag í gegnsæi, heiðarleika og fagmennsku.  Við viljum að sveitarfélagið beiti sér fyrir bættum stjórnarháttum, rekstri og lífsgæðum. Við viljum stytta vinnuvikuna og bjóða starfsfólki uppá sveigjanlegri vinnutíma. Tíminn er dýrmætur og verður ekki metinn til fjár. Þannig stuðlum við einnig að meiri starfsánægju. Við horfum hér sérstaklega til fólks sem sinnir kennslu- og umönnunarstörfum.

Við viljum framsækni í menntun. Það þarf frekari samvinnu milli skólastiga, efla háskólasamfélagið og hlúa að list- og verkgreinum. Við fögnum sérstaklega tilkomu FabLabs í sveitarfélaginu.

Árborg ætti að vera samkeppnishæf við allt Suðvesturhornið. Við eigum að laða til okkar fjölbreytt og skemmtileg fyrirtæki sem bjóða upp á störf við allra hæfi, samkeppnishæf laun og fá unga fólkið okkar aftur heim í hérað.

Til þess að svo megi verða þarf að móta atvinnustefnu til framtíðar, að tryggja gott skipulag sem sátt ríkir um, nægt framboð af lóðum og fjölbreytt húsnæði.

Skipulag á að styrkja sérstöðu allra byggðalaga í sveitarfélaginu. Fjölbreytni þéttbýliskjarnanna gerir sveitarfélagið áhugaverðara og býður upp á heimkynni fyrir alla.

Framtíðin ber í skauti sér enn meiri kröfur í umhverfismálum.  Það þarf að koma skólpmálum í lag strax og sorphirðu, flokkun og eyðingu þarf að endurskoða.

Það þarf að lækka rekstrarkostnað. Það er hægt að gera með því að bjóða út allar framkvæmdir, nota verðkannanir og sameiginleg innkaup. Þá er hægt að lækka útsvar, fasteignagjöld og leikskólagjöld.

Við í Áfram Árborg viljum láta íbúa njóta bættrar rekstrarafkomu. Það á að fjárfesta í íbúum með minni álögum og betri þjónustu. Það er fólkið sem gerir Árborg að frábærum stað til að búa á. Ekki steypa og skuldir.

Áfram Árborg til framtíðar!

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, skipar 1. sæti Áfram Árborgar.
Álfheiður Eymarsdóttir, skipar 2. sæti Áfram Árborgar.