1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Hverjar eru þínar áherslur?

Hverjar eru þínar áherslur?

0
Hverjar eru þínar áherslur?
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir.

Nú eru sveitarstjórnarkosningar framundan og gefst okkur íbúum þá tækifæri til að velja þá sem við treystum best til að fara með stjórn sveitarfélagsins næstu fjögur árin. Á-listinn í Rangárþingi ytra býður fram öflugan hóp, sem samanstendur af ólíku fólki með brennandi áhuga á málefnum sveitarfélagsins. Hóp sem vill vinna að því að móta skýra framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið, ásamt því að útfæra og framkvæma þau mál sem sett eru fram í stefnuskrá listans. Listinn er þverpólitískt afl enda teljum við að pólitík eigi ekki að koma í veg fyrir að fólk geti unnið saman, því allt snýst þetta jú um að vinna saman að því að gera sveitarfélagið enn betra. En hvað er hægt bæta, hvað má betur fara?

Sveitarfélagið okkar er í örum vexti, íbúum er að fjölga sem og fyrirtækjum og samhliða því aukast tekjur sveitarsjóðs. Sveitarfélagið þarf að vera vel í stakk búið að taka við uppbyggingu sem þessari og er mikilvægt að hafa nóg af lóðum í boði, hvort sem er undir íbúðir eða atvinnuhúsnæði. Einnig bráðliggur á að huga að byggingu nýs leikskóla á Hellu og að hafa skýra framtíðarsýn í húsnæðismálum grunnskólanna.

Við á Á-listanum ætlum að gera vel við fjölskyldufólk með því að bjóða upp á gjaldfrjáls mötuneyti, greiða þrjá mánuði til viðbótar við fæðingarorlof og lækka fasteignaskatt af ibúðarhúsnæði. Við ætlum að gera sveitarfélagið okkar enn betra, því hér eigum við heima.

Rekstur verslunarhúsnæðis er ekki eitt af lögboðnum verkefnum sveitarfélaga og því við viljum leggja kapp í að selja hlut sveitarfélagsins í Miðjunni og nota það fjármagn sem greitt er með rekstri þar í að byggja upp grunnþjónustuna.

Þetta eru okkar áherslur og vonandi ríma þær við áherslur ykkar kæru íbúar. Berum virðingu fyrir lýðræðinu með því að kjósa og setjum x við Á á kjördag.

 

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, skipar 1. sæti Á-listans í Rangárþingi ytra