1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Góður árangur í Árborg

Góður árangur í Árborg

0
Góður árangur í Árborg
Ásta Stefánsdóttir.

Niðurstaða rekstrar Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2017 var sú besta af reglulegri starfsemi í 20 ára sögu þess. Hagræðingaraðgerðir sem ráðist var í hafa skilað þeim árangri að nú tekst að reka bæjarsjóð fyrir skatttekjur, eins og vera ber. Þrátt fyrir að ítrasta aðhalds sé gætt þá hefur þjónusta verið aukin á mörgum sviðum. Framlög til íþróttastarfs hafa verið stóraukin, frístundastyrkur hækkaður og frístundastrætó hefur göngu sína fyrir haustið. Börn og eldri borgarar fá frítt í sund og opnunartími sundlauga hefur verið lengdur.

Unnið er að stækkun húsnæðis grunnskóla og viðbygging við leikskólann Álfheima er komin í útboðsferli og verður tekin í notkun haustið 2019. Leikskólaplássum fjölgar um 45 og með því munu enn fleiri 12 mánaða börn fá boð um leikskólapláss.

Áfram er unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Stækkunin á Sundhöll Selfoss heppnaðist mjög vel og er næsta nýbygging knatthús á Selfossvelli. Húsið mun leysa brýnan vanda hvað varðar æfingar barna yfir vetrartímann. Frjálsar íþróttir munu einnig hafa æfingaaðstöðu í húsinu, auk þess sem almenningur getur nýtt hlaupabrautirnar til göngu t.d. yfir vetrarmánuðina.

Ánægjulegt er að framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili munu hefjast í vetur, hönnunarferli lýkur í ágúst og verður þá boðin út bygging 60 nýrra hjúkrunarrýma við HSu. Ný félagsaðstaða og dagdvöl fyrir eldri borgara verður tekin í notkun í sumar.

Að meðaltali hefur Sveitarfélagið Árborg getað veitt um 700 mkr á ári í nýfjárfestingar á síðustu átta árum. Framundan er tímabil þar sem byggja þarf upp nýjan skóla í Björk, virkja þarf borholur hitaveitu og bora eftir meira vatni, framkvæmdir við hreinsistöð fráveitu munu fara af stað á næsta ári, svo dæmi séu nefnd til viðbótar þeim framkvæmdum við leikskóla og knatthús sem að framan er getið. Allt eru þetta atriði sem eru nauðsynleg til að tryggja að svonefndir innviðir sveitarfélagsins geti staðið undir þeirri íbúafjölgun sem enn er ekkert lát á.

D-listinn leggur áherslu á ábyrga fjármálastjórnun og raunhæfa áætlun um uppbyggingu, sem tekur mið af því að halda skuldum sveitarfélagsins innan ásættanlegra marka og opinberra viðmiða. Öll þau framkvæmdaatriði sem að framan greinri rúmast innan lögbundinnar 3ja ára áætlunar sveitarfélagsins og er raunhæft að framkvæma.

 

Ásta Stefánsdóttir, 5. sæti á D-lista í Árborg.