1.1 C
Selfoss
Home Fréttir D-listinn í Ölfusi hugsar stórt

D-listinn í Ölfusi hugsar stórt

0
D-listinn í Ölfusi hugsar stórt
Rakel Sveinsdóttir.

D-listinn er með markviss áform um að beita ríkisvaldið þrýstingi svo hér verði meira gert og hraðar í samgöngumálum. Það sama á við um baráttuna fyrir því að hér verði rekið lítið hjúkrunarheimili. Öflugur þrýstingur er líkleg leið til árangurs og hafandi verið í stjórnunarstörfum í fjölmiðlum í um tuttugu ár, framkvæmdastjóri Creditinfo um árabil og nú formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, get ég auðveldlega bent á ýmsar leiðir til að fara í þessu. Ég hlakka líka til að taka þátt í áformum D-listans um aukið samtal við Orkuveitu Reykjavíkur. Á síðastliðnum vikum hefur nefnilega komið í ljós að margir íbúar telja sveitarfélagið ekki vera að uppskera sem skyldi af samningnum okkar við Orkuveituna vegna Hellisheiðarvirkjunar.

Ég bý í Lindarbæ í Árbæjarhverfinu og hefur fundist það merkileg upplifun að heyra hvernig umræðan í Þorlákshöfn er allt önnur en hér. Við sem sækjum þjónustu á Selfoss og í Hveragerði, erum mest að ræða um ferðaþjónustu, góð fjarskipti fyrir allt svæðið, samgöngumál, fegrun umhverfis, göng og göngustíga, vatnsmálin, skógrækt, þarfagreiningu skólaaksturs, þjónustu við fyrirtækin hér og fleira. Við teljumst tæplega 23% íbúa í sveitarfélaginu, skilum góðum útsvarstekjum, greiðum okkar fasteignagjöld og ýmsar aðrar tekjur hlýtur sveitarfélagið af þeim fyrirtækjum sem hér eru starfrækt. Samt er okkar varla getið í fundargerðum sveitarstjórnarinnar síðastliðin ár. D-listinn ætlar að breyta þessu og því var ég fengin til að vera á 2. sæti listans en Björn Kjartansson á Grásteini er í 9. sæti. Saman munum við láta rödd dreifbýlisins heyrast og eins er ég stolt af þeirri stefnu D-listans að hlusta vel á okkur nýbúana í sveitarfélaginu.

Sjálf tala ég fyrir hækkun frístundastyrks barna og lækkun inntökualdurs í leikskóla, meðal annars til að laða til okkar fleiri íbúa. Til þess að svo verði, þarf Ölfus að verða samkeppnishæfari í samanburði við sveitarfélögin í kring og á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru atvinnumálin mér hugleikin og þó ekki aðeins ferðaþjónustan því ég er alin upp í Stykkishólmi þar sem höfnin telst ein dýrasta djásnin. Ég vona svo sannarlega að okkur nýja fólkinu á D-listanum verði gefið tækifæri til að sýna hvað í okkur býr. Takk fyrir.

 

Rakel Sveinsdóttir, skipar 2. sæti D-listans í Ölfusi.