1.1 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð Á kjördag í Bláskógabyggð

Á kjördag í Bláskógabyggð

0
Á kjördag í Bláskógabyggð
Óttar Bragi Þráinsson.
Eyrún M. Stefánsdóttir

Við sem búum í Bláskógabyggð og þekkjum vel til vitum að sveitarfélagið hefur ótvíræða kosti. Hér er fjölskylduvænt, einstök náttúrufegurð og annáluð veðursæld. Við búum við mikinn mannauð og náttúruauðlindir sem er grunnur að hagsæld okkar samfélags. Hér er mikil þekking á frumvinnslu og úrvinnslu afurða og sveitarfélagið er eitt helsta framleiðslusvæði matvæla á landinu. Við getum státað okkur af helstu náttúruperlum landsins og fjölsóttustu ferðamannastöðunum.

Það hefur tvímælalaust verið haldið vel á spöðunum síðustu ár, veltufé frá rekstri var um 120 m.kr. á síðasta ári og skuldastaðan er einstaklega góð. Við tökum ábyrga afstöðu í þessum efnum og stefnum áfram á styrka fjármálastjórn þar sem útsjónarsemi og aðgæsla eru höfð að leiðarljósi. Við teljum hinsvegar að nú sé tækifæri til að sækja meira fram og skila góðri rekstarniðurstöðu samhliða aukinni þjónustu. Það má því gera ráð fyrir miklum umbótum í sveitarfélaginu á næstu árum komist Þ-listinn í meirihluta.

Við sem skipum Þ-listann, ásamt stjórn listans, höfum undanfarnar vikur og mánuði farið í naflaskoðun, átt samtöl við íbúa og haldið opinn málefnafund. Þetta hefur skilað okkur þeirri stefnu sem við ætlum að fylgja næstu árin. Við ætlum að vera betri í að eiga samtalið við íbúa og finna því farsælan farveg, við ætlum að leggja göngustígana í þéttbýlin, við ætlum að lækka leikskólagjöldin og við ætlum að hlúa að mannauðinum. Við viljum jafnframt að lagningu ljósleiðara verði lokið innan tveggja ára. Fleiri mál eru mikilvæg og verða auðvitað á dagskrá. T.d. húsnæðismál, málefni eldri borgara, skipulagsmál, lóðaframboð, umhverfismál og áfram mætti telja. Allt munum við nálgast með þekkingu, þor og þjónustu að leiðarljósi. Við munum leggja okkur fram við að vinna faglega og bendum á að stefnuskráin í heild sinni er birt á heimasíðu listans á www.xblaskogabyggd.is.

Með bættri nettengingu, lægri leikskólagjöldum og góðu lóðaframboði erum við að skapa enn betri búsetuskilyrði og forsendur fyrir frekari atvinnuuppbyggingu. Nálægðin við höfuðborgarsvæðið, aðlaðandi umhverfi og góð þjónusta innan sveitarfélagsins styrkja þær stoðir enn frekar. Bláskógabyggð getur orðið samkeppnishæfara sveitarfélag og enn eftirsóknarverðari kostur til búsetu.

Hvað á að gera? Við erum ekki í vafa, setjum X við Þ á kjördag.

 

Óttar Bragi Þráinsson, skipar 1. sæti Þ-listans í Bláskógabyggð.
Eyrún Margrét Stefánsdóttir, skipar 2. sæti Þ-listans í Bláskógabygð