1.7 C
Selfoss
Home Kosningar Ásahreppur Mikið getur sá er vel vill

Mikið getur sá er vel vill

0
Mikið getur sá er vel vill
Elín Grétarsdóttir.

Síðastliðin fjögur ár hef ég verið þeirrar ánægju aðnjótandi að geta lagt mitt að mörkum og vinna að fjölbreyttum málefnum er varða hagsmuni Áshreppinga. Í mörg horn er að líta þegar kemur að störfum hreppsnefndar og hef ég reynt að kynna mér þau eftir bestu getu til að taka upplýsta ákvörðun hverju sinni. Sérstaklega hef ég lagt mig fram í umræðu er lýtur að félagslegum málefnum, mannlega hlutanum. Ég hef setið í félagsmálanefnd Rangárvalla- og Vestur–Skaftafellssýslu og verið varamaður í Odda bs. sem annast rekstur leik- og grunnskóla sveitarfélagsins í samstarfi við Rangárþing ytra.

Íbúar hreppsins eru okkar mesta auðlind og þeirra hagsmuna ber að þjóna. Í máltæki sem sagt er vera frá Afríku segir; „það þarf heilt þorp til að ala upp barn“. Við þurfum gott samfélag til að einstaklingur nái að vaxa og dafna vel. Við á E-listanum teljum að lykillinn að góðu samfélagi sé að hafa góða grunnþjónustu sem taki við af ungbarnavernd, líka öflugt íþrótta- og tómstundastarfi ásamt lágum álögum. Í stefnumálum okkar á E-listanum er þar af leiðandi bæði komið inn á mikilvægi þess að samstarfssamningur Ásahrepps og Rangárþings ytra vegna Odda bs. verði endurskoðaður með það að markmiði að gera gott samstarf betra í leik- og grunnskólum. Einnig viljum við hvetja og styðja stofnanir Odda bs. og félagsþjónustuna meðal annars til að bjóða upp á meiri sérfræðiþjónustu sé þess þörf.

Félagsþjónustan sinnir mörgum verkefnum, þar á meðal eru forvarnir og snemmtæk íhlutun sem þarf að vera lifandi plagg og bannað er að sofna á verðinum. Starfsfólk sinnir ráðgjöf um persónuleg mál, þjónustuúrræði og réttindamál fyrir fólk á öllum aldri. Við á E-listanum leggjum áherslu á áframhaldandi heimaþjónustu við aldraða með það að leiðarljósi að efla notendann til sjálfsbjargar og sjálfræðis og um leið gera honum kleift að búa lengur heima við sem eðlilegastar aðstæður.

Við búum í góðu samfélagi en lengi má gott gera betur og er það markmið sem við á E-listanum munum aldrei víkja frá.

Elín Grétarsdóttir, skipar 1. sæti á E-lista Einingar í Ásahreppi.