3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Hlúum að samfélagi, náttúru og menningu

Hlúum að samfélagi, náttúru og menningu

0
Hlúum að samfélagi, náttúru og menningu
Halldór Pétur Þorsteinsson.
Sigurður Torfi Sigurðsson.

Nú þegar styttist í kosningar eiga einhverjir kjósendur eftir að gera upp hug sinn. Flokkar keppast við að bjóða gull og græna skóga og er það skylda hvers framboðs að upplýsa kjósendur sem best um stefnumál sín og hvaða málefni þau munu helst setja á oddinn.

Vinstri græn í Árborg vilja tryggja jöfnuð í samfélaginu, vernda náttúruna, hlúa að menningu og byggja upp vistvænt og gott atvinnulíf. Við viljum að allir geti notið þeirrar þjónustu sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum og allir eigi sama rétt á þeim tækifærum sem hér finnast.

Við viljum byggja samfélag þar sem öllum líður vel og er skipulagt eftir forsendum þeirra sem hér búa. Þjónusta þarf að vera sniðin eftir þörfum íbúa og allir eiga að njóta sömu réttinda. Tryggja þarf fjölskyldufólki aðstöðu til uppeldis barna sinna með fullnægjandi uppbyggingu innviða og þjónustu fyrir aldraða og fatlaða á þeirra eigin forsendum. Listinn er ekki tæmandi og lengi mætti telja.

Sama gildir um náttúru sveitarfélagsins, en í Árborg má víða finna falleg svæði sem hafa sérstöðu. Hér er fjölskrúðugt fuglalíf, margbreytilegur gróður, stórbrotin strandlengja og vatnmesta á landsins. Okkur ber að vernda náttúruna og skila henni í góðu ástandi til komandi kynslóða. Þess má geta að fimm svæði innan sveitarfélagsins eru á náttúruminjaskrá. Vinstri græn í Árborg vilja vinna að lögformlegri friðlýsingu á svæðum í sveitarfélaginu sem eru á náttúruminjaskrá. Við viljum einnig leggja allt kapp á að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í þann besta mögulega farveg sem kostur er á til að spilla ekki verðmætum náttúruminjum.

Í atvinnu- og skipulagsmálum viljum við marka langtíma stefnu sem byggir á sérstöðu og styrkleikum svæðisins í sátt við náttúru og íbúa. Við viljum byggja umhverfi sem hvetur til nýsköpunar og þekkingar. Það hefur víða sýnt sig að sveitarfélög sem byggja atvinnu á nýsköpun, menntun og hugviti búa yfir hvað mestri hagsæld.

Við í Vinstri grænum í Árborg erum ekkert öðruvísi en aðrir flokkar og viljum ná athygli kjósenda. Við erum með háleit en raunhæf markmið og hugsum til framtíðar. Við gefum loforð sem við getum staðið við.

 

Halldór Pétur Þorsteinsson, skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.
Sigurður Torfi Sigurðsson, skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg.