-2.2 C
Selfoss

Af hverju finnst mér miðbærinn góð hugmynd

Vinsælast

Skipulag miðbæjarins á Selfossi hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Ég hef hingað til valið að taka ekki þátt í opinberri umræðu um málið. Nú hef ég þó komist að þeirri niðurstöðu að hugsanlega sæi ég eftir því síðar að hafa ekki komið mínum skoðunum á framfæri – vonandi gagnast mitt sjónarhorn einhverjum við að gera upp hug sinn gagnvart hugmyndum um uppbyggingu og skipulag þessa svæðis.

Einhverjir vina minna munu vera mér ósammála en það er í lagi, við höldum áfram að vera vinir. Vonandi getur umræðan í okkar góða samfélagi einkennst af virðingu um þetta mál sem önnur.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á skipulagsmálum. Frá því ég flutti fyrst á Selfoss fyrir 20 árum hef ég mætt á allar kynningar á miðbæjartillögum sem ég hef komist á og hafa þær verið þó nokkrar. Sumar þessara tillagna hafa verið fínar. Sú sem hér um ræðir er þó í algjörum sérflokki að mínu mati. Ég er einlæglega hrifinn af hugmyndum Sigtúns þróunarfélags um nýjan miðbæ og hér koma mínar ástæður fyrir því:

Útlit húsanna
Löngu áður en þessi skipulagshugmynd kom fram hafði ég velt því fyrir mér af hverju ekki væri meira byggt af húsum í einmitt þessum „gamla“ klassíska íslenska stíl sem byggir á skandinavískum grunni. Sá hlýi og fallegi byggingarstíll sem einkennir húsin í fyrirhuguðum miðbæ er að mínu mati dæmigerður fyrir sumt af því fallegasta sem komið hefur fram í íslenskri byggingarsögu. Þetta eru hús sem heilla fólk, hvort sem það er hér á Selfossi, á Akureyri, Ísafirði, Eyrabakka eða Reykjavík. Þetta eru húsin sem ferðamenn jafnt sem heimamenn laðast að, þau eru ekki of stór, með mikinn karakter og umfram allt falleg þótt ólík séu. Stundum finnst mér eins og síðustu áratugi hafi fegurð oft vikið fyrir praktík. Hversu mörg falleg hús hafa t.d. verið byggð við Austurveginn síðustu 40 ár? Ég gæti hugsanlega nefnt tvö eða þrjú sem mér finnst þokkaleg enda nokkuð tímalaus í útliti og hugað að stíl. Að öðru leyti finnst mér fallegustu húsin við Austurveg, og reyndar á Selfossi yfir höfuð, vera eldri en 40 til 60 ára. Húsin sem um ræðir í tillögum um nýjan miðbæ eru ekki háð tískusveiflum í byggingarlist heldur eru þau klassísk, þau eru og verða falleg.

Í mínum huga er ekki verið að stela einhverjum byggingarstíl eða einkennum frá öðrum. Selfoss er íslenskur bær og það er íslenskur byggingarstíll sem verið er að heiðra með þessum hugmyndum. Þetta eru alvöru hús sem eiga sér vissulega fyrirmyndir en eru hvergi til lengur vegna þess að þau hafa glatast þar sem þau stóðu áður. Á Selfossi eru fyrir hús í svipuðum stíl og sum þeirra, sem byggja á skv. hugmyndum Sigtúns þróunarfélags, voru hér í bænum áður. Hér er ekki verið að byggja svissneska fjallakofa, amerísk háhýsi eða hús í kínverskum stíl. Nei, þetta eru falleg, íslensk hús. Hús sem við vitum að eru falleg. Það væri hægt að byggja „nútímalegri“ og jafnvel hagstæðari hús, – en hér er hugað að stíl og fegurð. Að innan verður skipulag húsanna eins og best hentar þeirri starfsemi sem þar á að vera. Þetta eru ekki leikmyndir, þetta eru alvöru hús þar sem alvöru fólk mun búa, starfa, versla og njóta sín.

Úthlutun stakra lóða á miðbæjarsvæðinu til mismunandi aðila gæti skilað okkur alls konar húsum sem hætt er við, miðað við byggingarsögu síðustu ára, að væru hönnuð út frá því hvað er hagstæðast í byggingu en ekki hvað er fallegt og hefur aðdráttarafl, fermetrar á kostnað fegurðar. Í tillögum Sigtúns þróunarfélags liggur heildarskipulagið fyrir. Hugmyndirnar sem um ræðir eru að mínu mati einstaklega vel hugsaðar og hafa farið í gegnum margar umferðir af hugmyndavinnu og kynningu. Þetta er aðlaðandi heild sem flest byggðarfélög geta aðeins látið sig dreyma um. Húsin standa þétt eins og í flestum öðrum fallegum miðbæjarkjörnum hvar sem er í heiminum.

Fyrir hverja er miðbærinn?
Í umræðunni hefur því verið haldið fram að hér sé aðallega verið að hanna miðbæ fyrir ferðamenn en ekki heimamenn. Ferðamenn eru fólk, rétt eins og Selfyssingar eru fólk. Fólk vill koma í miðbæ þar sem finna má mannlíf, veitingastaði, kaffihús, ýmsa þjónustu, bakarí, verslanir og söfn í fallegum húsum. Reglulega erum við minnt á að verslanir hafi átt erfitt uppdráttar á Selfossi og því sé óskynsamlegt að bæta við húsnæði fyrir fleiri. Ég man vel eftir þeim tíma, um og eftir síðustu aldamót, þegar Laugavegurinn í Reykjavík var í mikilli hnignun, mörg verslunarrými voru tóm og talað var um endalok verslunargötunnar. Svo komu ferðamennirnir og nú er Laugavegurinn vægast sagt lifandi og hvert rými er nýtt. Við þurfum ferðamenn ef við viljum hafa veitingastaði, kaffihús, bakarí, verslanir og söfn sem þrífast á Selfossi. Selfyssingar njóta heldur betur góðs af því. Ferðamenn eru vinir okkar. Það er þéttur kjarni, byggður í klassískum stíll sem fólk leitar í þegar það heimsækir borgir út um allan heim, og þar eru heimamennirnir líka.

Hvað með miðbæjargarðinn?
Ég er ótrúlega glaður með að við skulum eiga miðbæjargarð á besta stað. Garðurinn er reyndar bókstaflega í bakgarðinum hjá mér þannig að ég geng mjög oft þar í gegn. Við þau tilefni er ég nánast alltaf sá eini í garðinum, nema auðvitað á hátíðunum okkar, sem eru mjög skemmtilegar. Garðurinn er auðvitað ekkert sérstaklega skemmtilegur eins og hann er núna og þar er lítið við að vera, fyrir utan blakvöllinn sem ég reyndar hef aldrei séð neinn nota, aldrei. Ég fagna því verulega áætlunum bæjarráðs um að endurhanna garðinn til að hann verði skemmtilegri. Hluti af vandamálinu er samt veðrið, garðurinn er opinn fyrir köldum vindstrengnum frá Ölfusá. Það er yfirleitt allt annað veðurfar í suðurgarðinum mínum á Kirkjuveginum heldur en í bæjargarðinum, ástæðan er sú að í garðinum mínum er skjól.

Með fyrirhuguðum byggingum í miðbæjarskipulaginu myndast skjól í miðbæjargarðinum. Byggingar veita nefnilega skjól. Einna mest yrði skjólið þó líklega í þeim hluta miðbæjargarðsins sem til stendur að bæta við núverandi garð, þ.e. garðinum sunnan við Hafnartúnshúsið (blátt fallegt hús með hvítum hurðasúlum). Sá hluti er í eigu Sigtúns þróunarfélags. Þeir ætla að leggja þann hluta til miðbæjargarðins verði hugmyndirnar samþykktar. Garðurinn minnkar því ekki frá því sem nú er, hann breytist bara. Með góðu skjóli og fyrirhuguðum endurbótum á miðbæjargarðinum til að gera hann fjölskylduvænan og skemmtilegan verðum við komin með hinn prýðilegasta miðbæjargarð sem yrði mikið meira notaður.

Aðalmálið er samt þetta; að byggja hlýlegan og notalegan miðbæ við hlið garðsins dregur ekki úr heldur þvert á móti eykur gæði og möguleika til hátíðahalda. Þar myndast skemmtileg torg þar sem hægt er að hafa viðburði í tengslum við hátíðahöldin. Hægt er að takmarka umferð í nýju miðbæjargötunum á hátíðardögum og breyta þeim í göngugötur. Hvernig væru 17. júní og Menningarnótt í Reykjavík ef dagskráin færi aðeins fram í hljómskálagarðinum en ekki í miðbænum. Það myndi örugglega bjargast en miðbærinn gerir hátíðahöldin miklu skemmtilegri. Ég held að hátíðirnar okkar yrðu mun betri en ekki verri með miðbænum.

Sumir hafa velt því fyrir sér að breyta svæðinu öllu í stóran grasagarð. Ég elska fallega garða og fer t.d. oftast í Lystigarðinn á Akureyri þegar ég fer norður. Grasagarður er góð hugmynd, bara ekki í miðbæjargarðinum, þar þarf að vera hægt að taka á móti miklum fjölda fólks á opnu svæði. Það eru aðrar staðsetningar miðsvæðið fyrir uppbyggingu grasagarðs. Hvað með að búa til flottan grasagarð steinsnar frá miðbænum, á stóra leikvellinum austan við Kirkjuveg og sunnan við Heiðarveg? Sá leikvöllur er lítið nýttur – ég bý beint á móti honum og á sjálfur fjögur börn þannig ég veit hvað ég er að tala um. Annar möguleiki er stóra túnið við hliðina á Selfosskirkju, ég veit reyndar ekki hver á það tún en þetta mætti skoða.

Sjáið þetta fyrir ykkur:

  1. Fallegur, hlýlegur og lifandi miðbær með torgum og líflegu götulífi.
  2. Vel hannaður, fjölskylduvænn og skjólgóður miðbæjargarður sem tengist miðbænum og myndar með honum heildarsvæði.
  3. Flottur grasagarður handan við hornið.

Allt þetta væri miðsvæðis í fallega bænum okkar, hversu fullkomið væri það? Ég þori varla að minnast mögulegt fullklárað menningarhús hinumegin við götuna. Það væri nánast of gott!

Af hverju á þetta félag að fá að byggja miðbæ en ekki einhver annar?
Mér er í raun alveg sama hver byggir miðbæinn. Ég þekki aðilana, sem standa að félaginu, nánast ekkert og hef ekki hagsmuna að gæta, nema þeirra hagsmuna sem tengjast því að vera Selfyssingur sem vill bænum sínum það besta. Fyrir mér lítur þetta einfaldlega svona út:

  • Félag kemur með einstaka, fallega og heildstæða hugmynd að skipulagi sem er líklegt til að verða bæjarfélaginu til mikils framdráttar.
  • Ekki voru aðrir að falast eftir lóðunum á þeim tíma sem vilyrði var gefið fyrir þeim, hvað þá að koma með góða hugmynd að uppbyggingu.
  • Aðilarnir munu sjálfir greiða fyrir gatnagerð á svæðinu.
  • Aðilarnir leggja til aðliggjandi lóðir sem þeir eiga sjálfir og við það stækkar svæðið til muna. Enginn annar aðili getur gert það, aðeins þeir sem eiga lóðirnar.
  • Aðilarnir hafa sýnt fram á að fjármögnun á verkefninu er tryggð.
  • Aðilarnir taka sjálfir áhættuna við uppbygginguna. Auðvitað eru þetta viðskipti, vonandi fá þeir góðan hagnað eftir alla vinnuna en það er þó ekki sjálfgefið. Þeir byggja, þeir borga og þeir taka áhættuna, við fáum miðbæ.
Aron Hinriksson.

Að lokum
Ég vona að við áttum okkur á hversu mikið er hér í húfi. Svona tækifæri til uppbyggingar er frá mínu sjónarhorni algjörlega einstakt. Það er langt frá því sjálfsagt að svona tækifæri komi aftur. Það gæti raunverulega gerst að loksins, loksins fengjum við alvöru, hlýlegan og fallegan miðbæ. En við getum líkað glatað tækifærinu, það væri vægast sagt sorglegt.

Ég hvet þá bæjarstjórn sem hér verður við völd eftir kosningar til að vinna áfram að framgangi málsins, ég hvet Sigtún þróunarfélag til að gefast ekki upp þrátt fyrir einhverja mótstöðu og ég hvet þig sem lest þessa grein til að greiða atkvæði með uppbyggingunni þegar við fáum tækifæri til að kjósa um málið.

Ég er nokkuð undrandi á því hvað þetta skiptir mig miklu máli, mig virkilega langar að sjá þetta verða að veruleika. Sennilega er það vegna þess að ég tel að þessi uppbygging feli í sér mjög mikla lífsgæðaaukningu fyrir okkur Selfyssinga og auðvitað sveitarfélagið allt.

Með virðingu,
Aron Hinriksson, íbúi við Kirkjuveg, Selfossi.

 

Nýjar fréttir