2.8 C
Selfoss

82,2 mkr. hagnaður er af rekstri Hveragerðisbæjar

Vinsælast

Hagnaður af rekstri Hveragerðisbæjar samkvæmt ársreikningi 2017 var 82,2 milljónir króna. Þetta kemur fram í síðari umræðu bæjarfulltrúa um ársreikninginn.

Í bókun bæjarfulltrúa D-listans á síðasta fundi bæjarstjórnar kemur m.a. fram:

„Fjárhagur bæjarins er í traustum skorðum nú sem fyrri ár en samfelldur hagnaður hefur verið af rekstri samstæðu A- og B-hluta frá árinu 2012. Á árinu 2017 lauk stærstu framkvæmd kjörtímabilsins, byggingu 6 deilda leikskóla við Þelamörk. Það er ljóst að mikil þörf var á þeirri byggingu en nú getur bæjarfélagið boðið börnum frá 12 mánaða aldri leikskólavistun. Í Hveragerði er hugsað og framkvæmt með framtíðina í huga sem hefur gert að verkum að mikil ásókn er í búsetu í bæjarfélaginu og ánægja íbúa samkvæmt könnunum með því besta sem gerist á landinu.

Fasteignaverð er hærra en í nágrannasveitarfélögum og fyrirséð að í bæjarfélaginu mun fjölga vel umfram landsmeðaltal á næstu árum. Við aðstæður sem þessar er mikilvægt að fjármálum bæjarins sé stýrt af festu en að jafnframt sé til staðar sýn til framtíðar varðandi uppbyggingu innviða sem nauðsynlegir eru.

Ársreikningur 2017 sýnir sterka afkomu Hveragerðisbæjar bæði sveitarsjóðs og samstæðu(A- og B-hluta). Samstæðan skilar jákvæðu veltufé frá rekstri 277,2 mkr. eða sem nemur ríflega 10% af heildartekjum bæjarins. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 337,3 mkr. sem er 12,3% af heildartekjum samstæðu. Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2017 109,7 % sem er 40,3 prósentustigum undir skuldaþakinu svokallaða.

Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar til framtíðar. Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár. Fjárfestingar á árinu 2017 námu 522,3 mkr. á móti fjárfestingu ársins 2016 er nam 331,7 mkr.

Gott og ábyrgðarfullt starf forstöðumanna bæjarins og starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist hefur verið sveitarfélaginu afar mikilvægt. Eru þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins.“

Fulltrúar minnihlutans bókuðu eftirfarandi:

„Bæjarfulltrúar Frjálsra með Framsókn og Samfylkingar og óháðra fagna jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu bæjarins fyrir árið 2017.

Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar hefur síðustu ár verið unnin í samstarfi allra flokka sem sæti eiga í bæjarstjórn. Það hefur bætt fjármálastjórn bæjarins.

Góð rekstrarniðurstaða má einnig rekja til þess að tekjur bæjarins voru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ljóst er að skuldsetning hefur aukist talsvert m.a. vegna byggingar nýs leikskóla. Það gerir bæinn viðkvæmari fyrir ytri skakkaföllum, og því mikilvægt að gæta hófs í frekari lántökum á næstu árum.

Eins og undanfarin ár vekur það athygli hversu stór hluti af tekjum bæjarins er framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, eða 518 mkr. af 2.624 mkr. heildartekjum sveitarsjóðs. Það nemur um 20% af heildartekjum sveitarsjóðs. Ástæða þessa háa framlags frá Jöfnunarsjóði eru lágar tekjur bæjarins. Með hærri tekjum er hægt að borga skuldir hraðar niður og auka þjónustu við bæjarbúa. Vænlegasta leiðin til að hækka tekjur bæjarfélagsins er að efla atvinnulíf, sem bæjarfulltrúar S- og B-lista hafa ítrekað bent á. Undirrituð þakka fyrir gott samstarf á liðnum árum og vonast til þess að ný bæjarstjórn sem kjörin verður í lok þessa mánaðar muni einnig vinna vel saman að fjármálastjórn bæjarins.“

Ársreikningurinn var samþykktur að loknum umræðum með öllum greiddum atkvæðum og undirritaður.

Nýjar fréttir