5 C
Selfoss
Home Fréttir Hvers vegna ætti unga fólkið í Árborg að setja X við S?

Hvers vegna ætti unga fólkið í Árborg að setja X við S?

0
Hvers vegna ætti unga fólkið í Árborg að setja X við S?
Elsie Kristinsdóttir.
Sandra Silfá Ragnarsdóttir.
María Skúladóttir.

Flest ef ekki öll höfum við ákveðnar skoðanir á því hvernig samfélagi við viljum búa í. Og það er frábært, við eigum að hafa skoðanir á því. Það sem er eiginlega enn betra er að við getum haft áhrif á samfélagið okkar. Hvernig? Jú með því að fara á kjörstað og nýta kosningaréttinn okkar. Kosningarétturinn er eitt af því dýrmætasta sem við eigum og því er mjög mikilvægt að við nýtum okkur hann. En hvað á svo að kjósa? Okkur finnst mikilvægt að allir kynni sér málin og taki upplýsta ákvörðun áður en atkvæðinu er skilað.

Færum okkur svo að máli málanna, stefnuskrá. Þetta orð gæti virkað yfirþyrmandi fyrir marga, skiljanlega, en er í rauninni mjög sniðugt og gott orð. Stefnuskrá felur í sér helstu baráttumál hvers flokks fyrir sig og það er okkar trú að stefnuskrá Samfylkingarinnar sé frábær og að þar sé að finna góð málefni, sér í lagi fyrir ungt fólk.

Við viljum öll búa í góðu samfélagi og vissulega er gott að búa í Árborg þó auðvitað sé alltaf eitthvað sem betur mætti fara. Í Árborg býr mikið af ungu fólki sem stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og mikið af ungu fólki að stofna fjölskyldur og að fjárfesta í sínu fyrsta húsnæði. Hingað flytur fjölskyldufólk alls staðar að því hér er bæði gott að ala upp börn og húsnæðisverð er lægra en á mörgum öðrum stöðum. Mikilvægt er að unga fólkið í Árborg hafi tækifæri til að stunda atvinnu í sínu nærsamfélagi og þykir okkur í Samfylkingunni það vera gríðarlega mikilvægt að efla hér atvinnumöguleika unga fólksins svo þau þurfi ekki að leita til höfuðborgarinnar að atvinnu til að halda sér og sínum uppi.

Ungt fólk er oftar en ekki fjölskyldufólk með börn og það eitt auðgar samfélagið okkar svo um munar. Það er því mjög mikilvægt að við getum boðið börnunum okkar upp á leikskólapláss frá 12 mánaða aldri og á sama tíma aðlagað starf leikskólanna að þörfum þeirra með því að fjölga starfsfólki. Einnig þykir okkur afar mikilvægt að styðja ófaglært starfsfólk leikskóla til að afla sér menntunar og hvetja til þátttöku í raunfærnimati til að meta starfsreynslu þess og þekkingu.

Eins og áður hefur komið fram auðga börn og ungmenni samfélagið okkar. Því þykir okkur mikilvægt að aðgengi að íþróttum og tómstundum sé jafnt fyrir alla. Því er það eitt af  baráttumálum okkar að tryggja að foreldrar greiði eitt þátttökugjald fyrir hvert barn að 12 ára aldri, óháð því hvaða íþrótt barnið stundar. Við viljum einnig sjá tómstundastyrk hækka og gæta þess að systkinaafsláttur verði samræmdur á milli tómstundagreina.

Umhverfismál skipta okkur líka miklu máli og það er eitthvað sem allir ættu að láta sig varða, sérstaklega ungt fólk sem mun einn daginn taka við jörðinni. Það er því mikilvægt að við náum að ljúka framkvæmdum í fráveitumálum þegar kemur að hreinsistöð á Selfossi. Einnig þurfum við að þróa og útfæra nýjar lausnir í fráveitumálum við ströndina þar sem markmiðið er að ekkert fari frá byggðinni út í sjó. Við viljum einnig ítreka mikilvægi grenndargáma til þess að auðvelda flokkun sorps og koma á fót flokkun lífræns úrgangs. Þá skiptir líka miklu máli að sveitarfélagið okkar bjóði upp á aðstæður sem hvetja fólk til göngu og hjólreiða, meðal annars með bættum göngu- og hjólreiðastígum.

Þó svo að kosningar og allt sem þeim fylgir geti verið ansi stór biti að kyngja og þá kannski sérstaklega fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í því að kjósa,  þá er nauðsynlegt að hafa það í huga að það breytist ekkert nema að við förum á kjörstað og kjósum breytingar.

En hvers vegna Samfylkingin? Það skiptir okkur máli hverjir það eru sem stjórna í sveitarfélaginu okkar. Við ákváðum að fara í framboð fyrir Samfylkinguna vegna þess að í Samfylkingunni lætur fólk sig varða jafnrétti, umhverfið, betra og sjálfbærara samfélag. Við vitum að Samfylkingin hefur sjónarmið allra að leiðarljósi. Samfylkingin er tilbúin til þess að hlusta á okkar raddir, raddir unga fólksins. Við trúum því að við, sem skipum sæti á lista Samfylkingarinnar í Árborg getum gert samfélagið okkar að betri stað og að ákjósanlegum kosti fyrir ungt fólk til þess að feta sín fyrstu fótspor út í lífið.

Þess vegna skorum við á ungt fólk að mæta á kjörstað á laugardaginn og setja X við S.

Elsie Kristinsdóttir, 6. sæti á lista Samfylkingarinnar í Árborg,
Sandra Silfá Ragnarsdóttir, 7. sæti á lista Samfylkingarinnar í Árborg,
María Skúladóttir, 10. sæti á lista Samfylkingarinnar í Árborg.