1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Lýðheilsa er lykillinn

Lýðheilsa er lykillinn

0
Lýðheilsa er lykillinn
Bjarki Oddsson.

Íþróttir og tómstundaiðkun er ein af grunnforsendum lífsgæða einstaklinga. Fyrir utan jákvæð áhrif á lýðheilsu þá hafa hreyfing og tómstundir gríðarlegt forvarnargildi.

Lýðheilsa ungra sem aldinna er hagsmunamál sveitarfélagsins. Svo kölluð „samfella“ íþrótta- og tómstundastarfs við grunnskólann er gríðarlega vel heppnað verkefni til að tryggja ungmennum aðgengi að fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi. Öflug skólaakstursþjónusta við nemenda sveitarfélagsins sem búa í dreifbýli tryggir einnig að öll börn sveitafélagsins hafa jafna möguleika til íþrótta- og tómstundaiðkunar innan samfellunnar.

Rangárþing eystra var fyrsta sveitarfélagið á landinu til að hefja vegferð um fjölþætta heilsueflingu íbúa 60 ára og eldri vorið 2017. Mjög góð þátttaka var í verkefninu en 62 íbúar skráðu sig til leiks.

Ekki má gleyma þeim sem ekki hafa áhuga á að stunda íþróttir og verðum við að hafa valmöguleika fyrir þá einstaklinga til annarskonar tómstundaiðkunar. Við búum svo vel að í sveitarfélaginu er staðsettur öflugur tónlistarskóli sem býður uppá fjölbreytta kennslu.

Þá var á líðandi kjörtímabili byggð ný félagsmiðstöð fyrir yngri kynslóðina, einnig var farið af stað með starf ungmennahúss sem ætlað er ungmennum frá 16 ára aldri. Ungmennahúsið er starfrækt í nýrri félagsmiðstöð. Með því að starfrækja ungmennahús er vilji sveitarstjórnar að búa ungmennum vettvang til þess að koma saman að skóla eða vinnudegi loknum. Félag eldri borgara starfrækir einnig öflugt félagsstarf á svæðinu sem við erum ákaflega þakklát fyrir og eiga þeir mikið hrós skilið fyrir sín störf.

Nú þegar líður að kosningum erum við stödd á krossgötum, við horfum til fortíðar og framtíðar. Þrátt fyrir að margt hafi verið gert má lengi bæta við þá frábæru þjónustu sem í boði er í sveitarfélaginu. Skipuleggja og hanna þarf íþrótta- og sundlaugasvæði, kanna þörf til frekari stækkunar á íþróttamiðstöð og síðast en ekki síst þarf að huga að því að reisa fjölnota íþróttahús sem myndi þjóna fjölbreyttum hópi íbúa sveitarfélagsins við tómstundaiðkun sína.
Tryggjum áframhaldandi uppbyggingu á hinu frábæra starfi sem unnið er í málaflokknum með því að setja X við B þann 26.maí.

 

Bjarki Oddsson, 5. sæti á lista Framsóknar og annarra framfarasinna í Rangárþingi eystra.