-4.4 C
Selfoss
Home Kosningar Flóahreppur Kosningar í Flóahreppi

Kosningar í Flóahreppi

0
Kosningar í Flóahreppi
Margrét Jónsdóttir.

Nú eru kosningar til sveitastjórna framundan, við veljum þá sem við treystum til að fara með málefni okkar nærsamfélags. Í Flóahreppi býður Flóalistinn fram krafta sína, það er hópur fólks sem hefur áhuga á málefnum sveitarfélagsins og vill gera gott samfélag enn betra. Flóalistinn er ekki flokkspólitískur, enda er vandséð hvað pólitík af því tagi á erindi inn í sveitarstjórn lítils sveitarfélags. Sveitafélög eru þjónustustofnanir fyrst og fremst og þannig nálgumst við frambjóðendurnir þetta starf sem við bjóðum okkur fram í að gegna.

Flóahreppur er ungt sveitarfélag í tvennum skilningi, það eru 12 ár síðan það var stofnað og þar býr fjölmargt ungt fólk. Hlutfall barna að 18 ára aldri er mjög hátt eða um fjórðungur íbúa. Þjónustu við barnafólk má telja með því besta, leikskólinn tekur við börnum strax að loknu fæðingarorlofi foreldra, eitt fárra sveitarfélaga á landinu. Vel er búið að skóla og leikskóla og það er metnaður Flóalistans að svo verði áfram. Boðið er upp á akstur í félagsmiðstöð og á íþróttaæfingar innan sveitar. Hvatastyrkir sem styðja við þátttöku barna og ungmenna í tómstundum utan sveitarfélagsins hafa verið tvöfaldaðir á síðustu árum.

Í Flóahreppi er gott samfélag þar sem eftirsótt er að búa. Það er mikil uppbygging í sveitarfélaginu og á næsta ári verður ljósleiðari að veruleika. Það mun auka búsetugæði til muna og gera svæðið enn eftirsóknarverðara til búsetu. Það er okkar, sem bjóðum fram krafta okkar í sveitarstjórn næstu fjögur árin, að stuðla að enn betra samfélagi. Vegna fjárhagslegs aðhalds undanfarinna ára og lítilla skulda sveitarfélagsins, er nú hægt að fara í framkvæmdir eins og ljósleiðara og íþróttahús við Flóaskóla verður næsta verkefni sem hugað verður að.

Ég vil hvetja sveitunga mína til að fjölmenna á kjörstað 26. maí n.k. og taka þannig þátt í því að móta sitt samfélag og kjósa L-lista Flóalistans.

 

Margrét Jónsdóttir, sveitarstjórnarmaðurí Flóahreppi og er í 3. sæti Flóalistans.