1.1 C
Selfoss
Home Kosningar Bláskógabyggð Bláskógabyggð – göngum í takt

Bláskógabyggð – göngum í takt

0
Bláskógabyggð – göngum í takt
Axel Sæland.

Eitt af stóru verkefnum sveitarfélaga er að skapa umhverfi til uppbyggingar. Grunn- og leikskólar þurfa að vera góðir og gjöld sanngjörn. Sorphirða þarf að miðast við þá þróun sem á sér stað í samfélaginu og hvetja til frekari flokkunar. Lóðaframboð sé fjölbreytt til að koma á móts við þarfir íbúa og atvinnulíf hverju sinni. Umhverfi þéttbýliskjarna þarf að vera aðlaðandi og snyrtilegt þar sem götur eru með bundnu slitlagi og göngustígum svo eitthvað sé nefnt.

Uppgangur ferðaþjónustunnar hefur farið fram úr björtustu vonum og þar hefur einkageirinn fylgt eftir af mikilli elju og frumkvæði. Sveitarfélagið hefur ekki náð að halda í við þessa þróun og þar af leiðandi hafa skapast áskoranir í sveitarfélaginu í formi húsnæðisskorts. Skipulagsmál hafa dregist og framboð lóða lítið sem ekkert. Núna er beðið eftir því að Skipulagsstofnun samþykki nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Í framhaldinu á nýtt deiliskipulag fyrir Reykholt að verða samþykkt og þá fyrst er hægt að bregðast við íbúðavandanum með framboði á nýjum lóðum. Einnig liggur fyrir að breyta þurfi deiliskipulagi Laugarvatns, þær lóðir sem eru í boði þar eru illbyggilegar. Nú er nánast allt land innan Laugarvatns í eigu sveitarfélagsins eftir að ríkið gerði skiptasamning á landi við sveitarfélagið. Þarna eru mikil tækifæri í að gera Laugarvatn að enn betri búsetukosti.

Skipulagsmálin eru farin að standa í vegi fyrir sveitarfélaginu sjálfu og fyrirtækjum þar sem engar hentugar lóðir fyrir par eða raðhús með litlum og meðalstórum íbúðum eru til staðar. Þ-listinn vill tryggja að deiliskipulag Reykholts verði tilbúið þegar aðalskipulagið verður samþykkt, því þá fyrst er hægt að bjóða góðar lóðir til sölu.

Þ-listinn vill og ætlar að vinna upp þau skref sem vantar til að geta gengið í takt við samfélagið. Það gerum við fyrst og fremst með því að leggja okkur fram og þora að taka ákvarðanir sem gera gott samfélag betra.

Stefnuskrá Þ-lista Bláskógabyggðar má finna inn á www.xblaskogabyggd.is

 

Axel Sæland, 3. sæti Þ-lista Bláskógbyggðar.