-8.2 C
Selfoss
Home Fréttir Menning í Árborg – hugsum út fyrir kassann

Menning í Árborg – hugsum út fyrir kassann

0
Menning í Árborg – hugsum út fyrir kassann
Guðfinna Gunnarsdóttir.

Hvernig skilgreinum við okkur sem íbúa í sveitarfélaginu Árborg? Hvað er það sem sameinar okkur? Í mínum huga er það eitthvað huglægt hjá hverjum og einum. En menning er líka huglægt fyrirbæri og ætti að endurspegla þá fjölbreyttu flóru fólks sem í sveitarfélaginu býr og það umhverfi sem hefur mótað uppbyggingu bæjarins. Hvað segjum við þegar við tölum um sveitarfélagið okkar? Vitum við hvaða verðmæti eru fólgin í umhverfi okkar? Áin, fjaran, fuglalífið, söfnin, fólkið? Hvað sameinar okkur? Við erum jú öll fólk.

Hvað sameinar okkur? Það ætti að vera þungamiðja þegar mótuð er framtíðarstefna í menningarmálum sveitarfélagsins. Og já það ætti að gera plan, langtímaáætlun með áfangamarkmiðum til að minnsta kosti næstu 30–50 ára þar sem hugað er að öllum þeim þáttum sem að menningu snýr, tómstundir, íþróttir, útivist og svo framvegis. Langtímaáætlun sem kallast á við aðalskipulag sveitarfélagsins. Aðkomu að slíkri áætlanagerð ættu íbúar og hagsmunaaðilar. Þannig væri hægt að setja fram áfangamarkmið sem hægt væri að standa við til lengri tíma.

Dæmi um slíkt væri framtíðaruppbygging íþrótta – og tómstundamannvirkja, uppbygging menningarhúsa, safnaðstaða og græn svæði. Vill Árborg vera með vistvænan miðbæ? Hvernig tengjum við betur saman mannlífið og menningararfinn við ströndina upp að Ölfusárbrú?

Ef við setjum íbúana í forgang og hugum að þeirra þörfum – þá vilja aðrir heimsækja okkur. Ef að við búum til gott umhverfi og staði til að hittast, þá vilja aðrir koma og „hygge sig“ með okkur. En setjum okkur stefnu, sem byggir á vilja og hugmyndum íbúanna, það ætti að ýta undir samstöðu og gleði. Hugsum okkur út fyrir kassana okkar og sjáum fegurðina í fjölbreytileikanum og hvernig allt vinnur saman. Margfeldisáhrifin verða ótvíræð.

Skilningur og samtal er leið til góðra ákvarðana og sátta. Gífuryrði og hleypidómar sem og alls kyns misskilningur hindrar framfarir og lausnir. Kjörnir fulltrúar eiga að hlusta og taka samtalið, þeir eru kjörnir til að þjóna, ekki til að drottna og deila.

Endilega kynnið ykkur stefnumál Áfram Árborg. Kíkið á stefnuskrána okkar á netinu eða kíkið í kaffispjall á kosningaskrifstofunni okkar að Austurvegi 6.

 

Guðfinna Gunnarsdóttir skipar 4. sæti á lista Áfram Árborg.