-3.2 C
Selfoss
Home Kosningar Flóahreppur Heilsueflandi samfélag í Flóahreppi

Heilsueflandi samfélag í Flóahreppi

0
Heilsueflandi samfélag í Flóahreppi
Lilja Ómarsdóttir.

Eitt af aðalmálum T-listans er að kanna grundvöll fyrir byggingu íþrótta- og samkomuhúss sem þjóna myndi öllum íbúum hreppsins. Byrjunin væri að kanna hvort fjárhagslegur grundvöllur væri til þess að fara í framkvæmdir. Það er ein af framtíðarsýnum T-listans að hér verði blómlegt ungmennafélag og að íbúar hreppsins búi við góða líkamlega, andlega og félagslega líðan.

Ég hef séð það í starfi mínu hjá Þjótanda að íþróttaaðstaða hér í hreppnum er barns síns tíma og úreld að mörgu leyti. Stenst ekki kröfur nútímans ! Börn og unglingar þurfa að sækja æfingar og íþróttir til annarra sveitarfélaga þar sem að engin aðstaða er hér boðleg til almennilegrar íþróttaiðkunar. Er ekki orðið æskilegt að vinna að því að styrkja inniviði hreppsins okkar?

Ásamt því að nýta húsið til íþrótta fyrir börnin í skólanum, þá væri það nýtt fyrir Ungmennafélagið í sinni starfsemi. Þar fyrir utan væri hægt að nýta húsið til æfinga fyrir hina ýmsu aldurshópa og þá er ég ekki bara að tala um börn og unglinga. Fólk á öllum aldri gæti tekið sig saman og hist og farið t.d. í körfubolta, handbolta, blak og margt fleira. Látum hugmyndarflugið ráða ! Hér má ekki gleyma hinu mikla forvarnargildi sem að íþróttir hafa og því betri aðstaða – því fleiri iðkendur – því betra samfélag.

Eins og flestir vita þá anna félagsheimili hreppsins, ein og sér, ekki þeim fjölda fólks sem gæti mætt á viðburði ef meirihluti íbúa hreppsins myndi mæta. Oft er þröngt á þingi á hinum ýmsu viðburðum.

Þorrablót eru enn haldin á þremur stöðum í sveitinni, margir íbúar mæta á fleiri en eitt blót og jafnvel fleiri en tvö. Því hér var sameining fyrir tólf árum síðan og margir vinir sem koma úr sitt hvorum enda hreppsins en vilja mæta saman á viðburði.

Hér myndi íþrótta- og samkomuhús breyta þeirri sviðsmynd. Íbúar myndu sameinast í viðburðum hreppsins og pláss væri fyrir alla.

Bygging íþrótta -og samkomuhúss fyrir alla er sú leið sem við hjá T-listanum viljum fara í átt að heilsueflandi samfélagi.

Hvað viljið þið hin?

 

Lilja Ómarsdóttir, skipar 3. sæti T-listans í Flóahreppi.