-8.7 C
Selfoss
Home Kosningar Ásahreppur Staða og stefna í Ásahreppi

Staða og stefna í Ásahreppi

0
Staða og stefna í Ásahreppi
Egill Sigurðsson.

Í fyrsta sinn verða listakosningar í Ásahreppi, en fram að þessu hefur þar verið persónukjör sem er óumdeilt lýðræðislegasta form á kosningu. Það eru ekki málefnin sem krefjast þess að horfið sé frá því virka lýðræði sem viðhaft hefur verið í sveitarstjórnarkosningum í Ásahreppi.

Hvernig búi tekur ný sveitarstjórn í Ásahreppi að loknum kosningum? Í fyrsta lagi er sveitarsjóður skuldlaus. Það var gert þrátt fyrir að farið var í lagningu ljósleiðara inn á hvert heimili í Ásahreppi sem kostaði sveitarfélagið 85 milljónir. Þá hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu á fleiri stöðum s.s. að viðbyggingu við Hjúkrunarheimilið Lund og byrjun á endurnýjun kaldavatnsveitunnar. Eitt af stóru málunum á kjörtímabilinu var stofnun byggðasamlagsins Odda þar sem við rekum grunn- og leikskóla í samstarfi við Rangárþing ytra. Með stofnun Odda, ásamt gerð og samþykktar skólastefnu, er lagður grunnur að enn betra skólastarfi, öllum íbúum til heilla.

Ný sveitarstjórn tekur við afar góðu búi. Hver eru þá helstu verkefnin fram undan? Þar vil ég minnast á þrjú stór verkefni sem munu skipta miklu máli hvernig eru leyst. Fyrir það fyrsta þarf að fara yfir alla samninga um samstarfsverkefni við Rangárþing-ytra og ekki síst þá er snúa að Odda bs. Mikilvægt er að áfram verði staðið vel að skólamálum, þannig að það standist allan samanburð við það sem best gerist. Í öðru lagi þarf að fylgja eftir framkvæmdaáætlun er varðar endurnýjun vatnsveitunnar. Þó að Ásahreppur eigi einungis rúm 18 % í veitunni skiptir það íbúa miklu máli að vel takist til. Í þriðja lagi eru það skipulagsmálin. Endurskoða þarf aðalskipulag Ásahrepps á næsta kjörtímabili. Það mun áfram verða sótt að skipulagsvaldi heimamanna, sérstaklega á afréttinum, nýjasta tilraunin er í formi svokallaðs miðhálendisþjóðgarðs. Við á E-lista erum alfarið á móti þeim hugmyndum. Stjórnsýsla og öll yfirumsjón Holtamannaafréttar hefur verið í höndum Ásahrepps í góðu samstarfi við Rangárþing ytra. Það viljum við tryggja til langrar framtíðar. Við viljum ábyrga stjórn og framkvæmdir sem eru í takt við getu sveitarfélagsins án skuldasöfnunar.

En hvað vilt þú kjósandi góður; festu og trygga stjórn kýstu E- lista Einingar í Ásahreppi

 

Egill Sigurðsson, oddviti Ásahrepps