7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Íbúar til áhrifa

Íbúar til áhrifa

0
Íbúar til áhrifa
Sveinn Ægir Birgisson.

Hverfisráðin í Árborg eru fjögur og taka þau til sömu svæða og hrepparnir gerðu, sem urðu að Sveitarfélaginu Árborg fyrir tuttugu árum. Fundargerðir hverfisráða eru teknar fyrir á bæjarráðsfundum og eru afgreiðslur sendar þaðan til nefnda sveitarfélagsins, eftir því sem við á. Almenn störf hverfisráðs eru að benda bæjarráði á hvað megi betur fara í nærumhverfinu. Vert er að nefna sunnudagsopnun Sundlaugarinnar á Stokkeyri, er dæmi um tillögu frá tilheyrandi hverfisráði. Á þessu ári urðu breytingar á hverfisráðunum, þar sitja nú bæjarfulltúar fundi sem áheyrnarfulltúar. Þannig eykst mikilvægi ráðanna og tenging þeirra við bæjarstjórn og bæjarfulltrúar eru betur upplýstir um hvað gerist í hverju ráði og fylgja tillögum eftir.

Í Árborg starfar öflugt ungmennaráð. Ungmennaráðið leggur áherslu á að koma með hugmyndir um hvernig er hægt að bæta Árborg og gera samfélagið enn betra með áherslu á líf ungs fólks. Þar eru skrifaðar blaðagreinar um samfélagsmálin, má nefna blaðagreinar um leiksvæðin og leigumarkaðinn. Árlega er fundur með bæjarstjórn, fyrir fjárhagsáætlunargerð, og tillögur eru bornar fram, dæmi um þær má nefna: fjölgun strætóskýla (við FSu og Tjarnabyggð), opnir fjölskyldutímar í Iðu og Frisbígolfvellir. Ungmennaráðið heldur einnig Ungmennaþing tvisvar á ári, sem og aðra viðburði, þar má nefna 120 manna ráðstefnu ungmenna og ráðamanna á Suðurlandi 2016, og leiddi hún til stofnunar Ungmennaráðs Suðurlands. Meðlimir ungmennaráðs fá greitt fyrir að sitja fundi ráðsins, þeir eru einnig áheyrnafulltrúar í öllum nefndum sveitarfélagsins og vinna náið með ráðamönnum. Ungmennaráðið hér í Árborg er eitt glæsilegasta og virkasta ungmennaráð á Íslandi, leyfi ég mér að fullyrða. Ég tel að rödd ungs fólks sé mikilvæg og er D-listinn í Árborg sammála því með því að hafa mig á 6. sæti á framboðslistanum. Ungt fólk er framtíðin og þess vegna er mikilvægt að við séum með í ráðum og á listum stjórnmálaflokka.

Undirritaður er formaður hverfisráðs Selfoss, meðlimur ungmennaráðs Árborgar í 4 ár og yngsti frambjóðandinn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Árborg.

 

Sveinn Ægir Birgisson, stuðningsfulltrúi í Vallaskóla og í 6. sæti D-listans í Árborg.