-3.2 C
Selfoss
Home Fréttir Hvað vakir fyrir G-listanum í Grímsnes- og Grafningshreppi?

Hvað vakir fyrir G-listanum í Grímsnes- og Grafningshreppi?

0
Hvað vakir fyrir G-listanum í Grímsnes- og Grafningshreppi?
Bjarni Þorkelsson.

Hvað vakir fyrir G-listanum?
– að taka skynsamlega og málefnalega afstöðu til þeirra álitamála sem upp kunna að koma.
– að vanda sig við rekstur sveitarfélagsins, rétt eins og hagsýn húsmóðir eða gróinn bóndi.
– að taka ekki kollsteypur eða reisa glæfralega loftkastala, en vaka um leið yfir tækifærum til að bæta – samfélagið og laða þannig að fólk sem vill lifa hér og starfa
– að rasa ekki um ráð fram með sölu lands og eigna
– að varðveita menningu og hefðir og styðja við félagsstarf sem hér hefur skotið rótum

Skólamál
Skólamál eru stærsta og viðkvæmasta viðfangsefni sveitarfélagsins – og þess vegna er það sérstakt áhugamál G-listans að standa þar vel að málum.
Skólinn er hjartað í samfélaginu – lítill sveitaskóli, sem hefur ótal kosti ef menn kunna að nýta þá. Samkennsla árganga er ekki vandræðalegt hallærisástand, heldur tækifæri til fjölbreyttra kennsluhátta og kannski eina raunhæfa leiðin til að ástunda með sómasamlegum hætti einstaklingsmiðað nám, sem áskilið er. Sérstakt keppikefli er að laða að réttindafólk, konur og karla.

Samhugur og sjálfsbjargarhvöt
Samfélagið þarf að bara hag æskunnar og ellinnar fyrir brjósti. Annars varðar mestu að stjórnsýslan sé ekki fyrir, heldur stuðli að atvinnuuppbyggingu með almennum aðgerðum, ýti undir sjálfsbjargarviðleitni, viðhafi og viðhaldi jákvæðu hugarfari, kappkosti að skapa eftirsóknarvert samfélag.

Æskan
Um æskulýðsmálin verður sérhverjum sveitarstjórnarmanni haldið við efnið. Um það sér barnafólkið í sveitinni – og þess hag þarf að efla. Gjaldfrjáls leikskóli hlýtur að vera framtíðarsýn alls hugsandi fólks, og er orðinn að veruleika í nokkrum sveitarfélögum. Hvenær kemur sá dagur í Grímsnes- og Grafningshreppi?

Ellin
Gamla fólkið já – eldri borgarar eru víðtækara hugtak, því margir slíkir eru vissulega fullfrískt fólk „á besta aldri“. Og þess vegna þarf að einstaklingsmiða velferðarþjónustu við eldri borgara, rétt eins og gildir um kennslu skólabarnanna. Það er orðið óhjákvæmilegt fyrir sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu að tryggja húsnæði fyrir gamla fólkið sitt. Það er sorgarsaga hversu marga einstaklinga hefur þurft að flytja hreppaflutningum í önnur héröð um árabil, fólk sem vill eyða ævikvöldinu í sinni heimabyggð. Það er reglulega ljótt að láta það ásannast í velmegunarsamfélagi að nokkur þurfi að kvíða ævikvöldinu.

 

Bjarni Þorkelsson, oddviti G-listans í Grímsnes- og Grafningshreppi.