-10.5 C
Selfoss

Af starfi Kvenfélags Gaulverjabæjarhrepps í 100 ár

Vinsælast

Árið 1918 var tímamótaár í sögu þjóðarinnar. Frostaveturinn mikli, spænska veikin, Kötlugos og fullveldi þjóðarinnar. Þá var og orðin vitundarvakning meðal íbúa landsins að félagsleg samstaða kæmi öllum til góða.

Þann 26. maí 1918 var boðað til fundar í Gaulverjabæ og stofnað Kvenfélag Gaulverjabæjarhrepps og á fundinum gekk 31 kona í félagið. Í fyrstu stjórn voru kosnar: Sigríður Einarsdóttir Fljótshólum forstöðukona, Vigdís Jónsdóttir Gaulverjabæ ritari og Þórlaug Bjarnadóttir Sviðugörðum féhirðir. Í upphafi var aðaltilgangur félagsins að hjálpa og hjúkra fátækum sængurkonum og öðru fátæku og umkomulausu fólki í hreppnum. Þá voru hvorki til sjúkrasamlög né almannatryggingar. Fjáröflun var ýmiskonar. Á fyrsta árinu var haldin skemmtun á Loftsstaðahól, einnig hlutaveltur og aðrar skemmtisamkomur. Þá voru ræktaðar kartöflur og seldar, ágóðinn rann til félagsins sem og eins dags hlutur sjómanna er réru frá Loftsstöðum. Um miðja öldina er félagsheimili hafði risið, tóku kvenfélagskonur að sér sölu veitinga. Jólatrésskemmtanir voru fljótlega haldnar í Félagslundi og í dag er það gert í samstarfi við Kvenfélag Villingaholtshrepps.

Félagið hefur staðið fyrir ýmissi fræðslu; svo sem í saumaskap, vefnaði, matreiðslu, ræktun grænmetis og ensku. Kvenfélagið tók þátt í byggingu Félagslundar og síðar í stækkun hússins, með fjárframlögum og vinnu. Einnig hefur sóknarkirkjan verið styrkt með gjöfum. HSU hefur notið krafta félagsins með sölu jólakorta og gjöfum, eins mörg líknarfélög. Félagið hefur á síðustu árum í tvígang tekið þátt í sameiginlegum jólabasar kvenfélaganna í Flóahreppi og þessi félög í sameiningu staðið fyrir dagsferð með eldri borgara. Þá má nefna kvöldvökur, 17. júní hátíðarhöld í samvinnu með Umf. Þjótanda, þátttöku á Fjöri í Flóa, veitingasölu og fl. Skemmti- og leikhúsferðir hafa verið farnar, menningarferð á aðventunni og tvisvar hefur verið farið til útlanda.

Í dag líkt og fyrir einni öld er félagsleg samstaða mikilvæg, þar koma kraftar kvenfélaganna til góða.

Nýjar fréttir