-1.6 C
Selfoss

Sumarvinnan hafin í Múlakoti í Fljótshlíð

Vinsælast

Vorið hefur komið seint og um síðir í Múlakoti í Fljótshlíð líkt og víðar á Suðurlandi, líklega a.m.k. hálfum mánuði síðar en i venjulegu árferði. En þegar það kom var það með miklum fjörkipp, dagamunur sést á laufgun reynitrjánna og grasið þýtur upp.

Töluverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Múlakoti á þessu sumri, endurbætur bæði á húsum og garði. Í elsta hluta garðsins á að endurgera dvalarsvæði. Áður fyrr var bekkur úr torfi og grjóti meðfram austurvegg garðsins. Sá bekkur hefur verið ónothæfur í áratugi og grjótið verður fjarlægt og gert hellulagt dvalarsvæði þar sem garðhúsgögnunum góðu sem gerð voru síðastliðið haust úr gömlum reynivið úr garðinum komið þar fyrir. Sú vinna er þegar hafin. Í vikunni var læðst með litla JCB gröfu inn í garðinn og dansað með hana milli trjánna tii að fjarlægja grjót og mold svo unnt sé að móta dvalarsvæðið.

Gamla húsið í garðinum er að falli komið, það þarf að endurgera i upphaflegri mynd með aðstoð ljósmynda.

Vinnu við endurbætur á elsta húsinu frá 1897–1898 verður haldið áfram. Gert verður við þá útveggi, sem eftir var að lagfæra og þak endurnýjað. Vonandi kemur ekkert óvænt upp, sem raskar þeim áformum, en margt óvænt getur komið i ljós þegar unnið er við gömul hús. Allir sem koma að framkvæmdun eru búsettir í héraði.

Aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti verður haldinn í Goðalandi í Fljótshlíð fimmtudagskvöldið 17. maí kl. 20. Í félaginu eru nú 100 félagar.

Aðgangur að garðinum er öllum frjáls og hópar sem panta leiðsögn um gamla hótelið fá það gegn vægu gjaldi.

Nýjar fréttir