2 C
Selfoss

Tillaga bæjarfulltrúa D-lista um íbúakosningu um aðal- og deiliskipulag miðbæjar Selfoss samþykkt

Vinsælast

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær tillögu bæjarfulltrúa D-listans um að efna til íbúakosningar á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um aðal- og deiliskipulag miðbæjar Selfoss sem samþykkt var í bæjastjórn hinn 21. febrúar 2018.

Samþykkt var að íbúakosningin fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosningarinnar verði rafræn. Um framkvæmd kosninganna fari eftir ákvæðum bráðabirgðaákvæðis V við sveitarstjórnarlög, sbr. og reglugerð nr. 1002/2015 um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár.

Bæjarstjórnin samþykkti að rafræna kosningin standi yfir í sjö sólarhringa og hefjist svo fljótt sem heimilað verður og lög leyfa. Bæjarstjórn fól bæjarráði að auglýsa kosninguna og taka ákvörðun um hvenær hún hefst, með vísan til framangreinds, svo og að ákveða hvar kjósendur geti greitt atkvæði á opinberum stöðum í sveitarfélaginu, þar sem nauðsynlegur tækjabúnaður er fyrir hendi. Bæjarstjórn samþykkti að miða kosningaaldur við 16 ára aldur.

Bæjarstjórn samþykkti enn fremur að eftirfarandi spurningar verði lagðar fyrir íbúa í íbúakosningunni:

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á aðalskipulagi Selfoss vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Skila auðu
Andvíg(ur)

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) tillögu að breytingu sem bæjarstjórn Árborgar samþykkti hinn 21. febrúar 2018 á deiliskipulagi fyrir miðbæ Selfoss?
Hlynnt(ur)
Skila auðu
Andvíg(ur)

Bæjarstjórn getur lögum samkvæmt ekki ákveðið að niðurstaða kosningarinnar bindi hendur þeirrar bæjarstjórnar sem tekur við að loknum sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 26. maí nk., en ljóst er vegna tímamarka í sveitarstjórnarlögunum að kosningin mun ekki fara fram fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningarnar.

Tillagan var samþykkt samhljóða af öllum bæjarfulltrúum.

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, lagði fram svohljóðandi bókun:
„Undirritaðir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fagna að sjálfsögðu því að tillaga um íbúakosningu vegna miðbæjarskipulags á Selfossi sé komin fram. Ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að undirrituð lögðu fram nánast samhljóða tillögu um íbúakosningu á 37. fundi bæjarstjórnar þann 23. ágúst 2017. Sú tillaga var felld af meirihluta D-lista og fulltrúa B-lista. Nú hafa íbúar sveitarfélagsins gripið inn í málið og knúið meirihluta bæjarstjórnar til þess að hlusta á kröfur íbúa og heimila almenningi að segja sína skoðun á lýðræðislegan hátt,það er sigur fyrir íbúalýðræðið.“
Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi S-lista
Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi S-lista

Athygli vekur að forsvarsmenn undirskriftasöfnunar sem haldin var hafa ekki enn skilað undirskriftalistum og því hefur bæjarstjórn ekki getað brugðist við henni í samræmi við ákvæði laga. Með samþykkt tillögunnar hér að ofan tekur bæjarstjórn frumkvæði í málinu og efnir til kosninga um nýja miðbæjarskipulagið.

Hér má sjá tillöguna sem lögð var fyrir fund bæjarstjórnar í gær ásamt umfjöllun um málið.

Nýjar fréttir