-4.4 C
Selfoss
Home Fréttir Þrír kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis

Þrír kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis

0
Þrír kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis

Í liðinni viku voru þrír kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Tveir þeirra voru við akstur á Selfossi, annar þeirra er jafnframt grunaður um að hafa jafnframt verið undir áhrifum fíkniefna og svarað jákvætt við prófun á cokaini. Þriðji aðilinn var stöðvaður af lögreglu á Þjórsárdalsvegi með því að lögreglubifreið var ekið á bifreið hans. Nánar hefur verið gerð grein fyrir því máli á facebook síðu lögreglunnar.

Alls voru 24  kærðir fyrir að aka of hratt. Einn þeirra reyndist réttindalaus eftir að hafa verið sviptur ökurétti við afgreiðslu annars umferðarlagabrots. Sá var að aka um þjóðveg 1 við Steina undir Eyjafjöllum á 101 km/klst hraða þar sem leyfður hraði er 70 km/klst. 11 þessara ökumanna voru á 120 km/klst hraða eða meira og sá sem hraðast ók var mældur á 145 km/klst hraða.

Skráningarnúmer voru tekin af sex bifreiðum sem reyndust ótryggðar í umferðinni. Sekt við akstri ótryggðar ökutækja í umferðinni er nú 50 þúsund krónur.

Lögreglumenn höfðu, þann 13. maí s.l. afskipti af flutningi gröfu á kerru aftan í jeppa en kerra sú ásamt gröfunni vigtaði 520 kg. meira en það sem bifreiðin mátti draga. Þá var grafan óbundin á vagninn. Viðkomandi var bönnuð frekari för þar til komið væri með ökutæki sem mætti draga þessa þyngd.

Hópferðabifreið fyrir 41 farþega var kyrrsett við Skógarfoss þann 9. maí þegar í ljós kom að viðkomandi hafði ekki rekstrarleyfi til aksturs.

Maður á þrítugsaldri var handtekinn á Selfossi þann 9. maí vegna gruns um fíkniefnamisferli. Hann framvísaði 11 neysluskömmtum af efninu og sagði það til eigin nota. Fór frjáls ferða sinna að skýrslutöku lokinni.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.