1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Vel sóttur ársfundur SSK

Vel sóttur ársfundur SSK

0
Vel sóttur ársfundur SSK
Kristín Stefánsdóttir, kvenfélagskona ársins, (t.v.) ásamt Elinborgu Sigurðardóttur, formanni SSK.

80. ársfundur SSK var haldinn að Efstalandi í Ölfusi 21. apríl sl. í umsjón Kvenfélagsins Bergþóru í Ölfusi. Fundurinn var vel sóttur af fulltrúum kvenfélaganna í Árnes- og Rangárvallasýslum. Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands sat einnig ársfundinn. Fundardagurinn hófst með helgistund í Kotstrandarkirkju, sem séra Jón Ragnarsson annaðist. Að henni lokinni var haldið að Efstalandi og gengið til hefðbundinna aðalfundarstarfa.

Í skýrslu formanns Elinborgar Sigurðardóttur kom fram að á þessu starfsári hafi einkunnarorð SSK verið. „Forvarnir – lykill að bættri lýðheilsu“. Á formannafundi í nóvember flutti Ólöf Kristín Sívertsen lýðheilsufræðingur fróðlegt erindi um Heilsueflandi samfélög, sem byggja á Lýðheilsustefnu stjórnvalda. Í umræðum að því loknu var rætt um nauðsyn þess að heilsustefna sveitarfélaga verði virk. Beinverndardagur var haldinn s.l. haust í samvinnu við Halldóru Björnsdóttur hjá Beinvernd. Rúmlega 100 manns mættu í Selið og fengu fræðslu og beinþéttimælingu.

SSK styrkir árlega Vísinda- og rannsóknasjóð Fræðslunets Suðurlands. Árið 2016 hlutu tveir meistaranemar, Ingibjörg S. Sæmundsdóttir og Anita I. Tryggvadóttir, styrk úr sjóðnum til meistaraverkefnis síns „Fjölþætt heilsurækt í sveitarfélögum“. Á ársfundinum flutti Ingibjörg kynningu á meistaraverkefni þeirra. Þær settu upp rannsóknarmódel með þátttöku eldri borgara í Rangárþingi eystra, þar sem könnuð voru áhrif reglulegrar líkamsþjálfunar. Fylgst var með þátttakendum um 12 vikna skeið og reglubundnar mælingar gerðar á líkamlegu ástandi þeirra. Niðurstöður leiddu í ljós mjög góð áhrif á andlega líðan, heilsu og líkamlega færni. Niðurstaðan er ótvírætt sú að með hvatningu og góðri aðstöðu fyrir eldri borgara til að stunda holla hreyfingu og rækta sál og líkama, hægi á öldrun auk þess sem færni einstaklinga til að búa lengur á eigin heimili og sjá um sig sjálf eykst umtalsvert.

Nú eru 25 kvenfélög innan SSK. Sjálfboðin vinna þeirra er varlega áætluð um 15.000 klukkustundir á sl. ári eða 1870 dagsverk. Kvenfélögin gáfu á síðasta ári 14,5 milljónir til verkefna á sviði heilbrigðis- öldrunar- og menntamála á sínum félagssvæðum.

Kristín Stefánsdóttir kvenfélagskona ársins
Á fundinum var tilkynnt um val á Kvenfélagskonu ársins 2017. Stjórnir kvenfélaganna velja konur úr sínum félögum til þessarar viðurkenningar. Elinborg Sigurðardóttir lýsti valinu og fór yfir glæsilegan feril Kristínar Stefánsdóttur sem félagskonu í Kvenfélagi Villingaholtshrepps. Kristín hlaut þessa viðurkenningu og fékk innrammað heiðursskjal því til staðfestingar ásamt áletruðu kökukefli, sem er farandgripur.

  1. ársfundur SSK samþykkti meðfylgjandi ályktun um lýðheilsumál:

Ályktun frá 90. ársfundi Sambands sunnlenskra kvenna sem haldinn er að Efstalandi í Ölfusi 21. apríl 2018.

  1. ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna hvetur sveitarstjórnir til að stuðla að heilsueflandi samfélagi og bættri lýðheilsu íbúanna með því að móta fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélög sín.

Jafnframt hvetur fundurinn sveitarfélögin til að huga að sveigjanleika er varðar yngstu börnin, eftir að fæðingarorlofi foreldra þeirra lýkur. Þannig að foreldrarnir geti haft val um leikskólapláss eða að fá niðurgreiðslu sveitarfélagsins greidda, til að eiga betri möguleika á að vera lengur heima með barninu.

Greinargerð:

Yfirstandandi starfsár Sambands sunnlenskra kvenna mótast af einkunnarorðunum; Forvarnir – lykill að bættri lýðheilsu.

Í heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi við stefnumótun og aðgerðir á öllum sviðum og er tilgangurinn sá að auðvelda fólki á öllum æviskeiðum að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi. Mikilvægt er að nýta fjölbreyttar, markvissar og heildrænar aðgerðir sem byggja á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Jafnframt þarf að stuðla að jöfnuði og taka tillit til viðkvæmra samfélagshópa. Úr grein eftir Ólöfu K. Sívertsen, sem birtist í Ársriti SSK 2018.

Fyrstu tvö æviár barnsins eru talin þau mikilvægustu er varðar tengslamyndun þeirra. Þessi fyrstu tvö ár þarfnast börn einstaklingsmiðaðrar umönnunar. Hún getur aldrei orðið ódýr. Það getur á hinn bóginn orðið mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið að tíma ekki að hugsa almennilega um börn.

Fyrstu árin er vitsmunaheilinn í mótun og mikilvæg skilyrði fyrir þroska hans eru að barni sé hlíft við óhóflegri streitu. Aðskilnaður frá foreldrum eða þeim sem þekkja barnið best getur verið streituvaldur.

Skýrsla Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) frá árinu 2016 vitnar um met Íslendinga í dvalartíma leikskólabarna í leikskólum, bæði í dagafjölda og klukkustundum. Þeim börnum fjölgar stöðugt hér á landi sem dvelja átta klukkustundir eða lengur á dag í leikskólanum. Hér á landi er næstum þrefalt algengara að börn á leikskólaaldri fái tauga- eða geðlyf heldur en í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

Leikskólar á Íslandi glíma við skort á fagmenntuðu fólki. Vandi barna verður ekki leystur með að byggja fleiri leikskóla. Eigi leikskólar að taka við börnum yngri en tveggja ára verða þeir að vera mannaðir fagfólki sem hefur skilning á viðkvæmni þeirra. Mikilvægasta hlutverk starfsfólksins er að veita börnunum öryggi og forsenda þess er stöðugleiki. Heimildir greinar eftir Sæunni Kjartansdóttur(Vísir 19.3.2018) og Guðríði Arnardóttur(Vísir 28.2.2018).

Samband sunnlenskra kvenna skorar því á sveitarfélögin að gefa foreldrum valkosti um að dvelja lengur heima með barninu, með því gefa þeim kost á greiðslu er nemur mismun á dvalargjaldi og niðurgreiðslu á dagvistunargjaldi barns í leikskóla.