Hvað skilgreinir öflugt og vaxandi sveitarfélag? Margt er hægt að tína til í þeim efnum, ánægja íbúa sem m.a. tengist veittri þjónustu til þeirra, sterkir innviðir t.d. skólar, fjölgun íbúa, fjölgun atvinnutækifæra, nægt framboð lóða fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi og svo mætti áfram telja. En grunnurinn að þessu flestu er að fjárhagur sveitarfélags sé traustur og það vel í stakk búið til þess að vaxa og dafna.
Sterkur grunnur
Ég bý og starfa fyrir sveitarfélag sem hefur þennan sterka grunn en er jafnframt að vaxa og dafna og hefur það alla burði til þess áfram á næstu árum. Ársreikningar sveitarfélagsins voru staðfestir í seinni umræðu bæjarstjórnar nú í lok apríl og þrátt fyrir háa einsskiptis gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga þá var afkoman mjög góð á síðasta ári og efnahagurinn sterkur. Allar lykilkennitölur í rekstri stofnanna eru í lagi og ekkert útlit fyrir að það muni breytast ef áfram verður haldið á sömu braut.
Ég hef starfað að sveitarstjórnarmálum undanfarin átta ár og sem bæjarfulltrúi á þessu kjörtímabili. Það hefur verið ánægjulegt og gefandi að taka þátt í uppbyggingu á innviðum sveitarfélagsins og stuðla að aukinni þjónustu við íbúana. Hvoru tveggja hefur verið gert á sama tíma og efnahagur Ölfuss hefur verið stórbættur undanfarin tvö kjörtímabil. Við frambjóðendur á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi viljum halda áfram sömu vegferð með og fyrir íbúa sveitarfélagsins á næsta kjörtímabili.
Jón Páll Kristófersson, formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss, skipar 1. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi, XO.